Krafan um bættar samgöngur á sunnanverðum Vestfjörðum var það sem mest var rætt á fundi um atvinnumál sem fram fór á Patreksfirði í kvöld. Um 300 manns mættu á fundinn að sögn Ásthildar Sturludóttur, bæjarstjóra Vesturbyggðar.
Á mælendaskrá fundarins voru fulltrúar atvinnulífsins og opinberra stofnanna á svæðinu auk þingmanna kjördæmisins.
„Það kom fram rík krafa frá fundarmönnum að lokið verði sem fyrst við Vestfjarðarveg númer 60 milli Bjarkarlundar og Flókalundar og að skýr svör fáist frá stjórnvöldum,“ segir Ásthildur.
Hún segir sunnanverða Vestfirði vera eina þéttbýliskjarnann á landinu sem búi við malarveg til Reykjavíkur. Samgöngur innan svæðisins séu góðar en suður séu þær vonlausar.
Þá hafi komið fram skýr krafa um að óvissu í sjávarútvegi verði eytt. Útgerðareigendur séu kvótalausir og enginn leigukvóti fáist vegna óvissunnar.
Einnig var niðurskurði í opinberum störfum mótmælt hástöfum, bæði hjá heilbrigðisstofnunni og sýslumanni.