Alls fengu rösklega 1.100 heimili aðstoð í gær hjá Mæðrastyrksnefnd og Fjölskylduhjálp Íslands og voru biðraðirnar langar. Vegna kuldans var tjaldi með hitalömpum slegið upp við bækistöð Mæðrastyrksnefndar til að halda hita á fólkinu meðan það beið eftir úthlutun. Fjölskylduhjálpin var hins vegar með að láni gamlan strætisvagn handa þeim sem vildu hlýja sér. Þá var einnig boðið upp á heitan mat og heilsuráðgjöf. Hægt verður að fá fría jólaklippingu á laugardögum hjá hjálparsamtökunum.
Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálparinnar í Eskihlíð, sagði að biðröðin hefði náð niður á Miklubraut.
„Þetta voru um 650 fjölskyldur í dag, fyrir viku voru hér 595. Það er alls ekki verið að misnota þessa aðstoð, hingað koma þeir sem sýna tilskilda pappíra, sýna að þeir séu atvinnulausir, öryrkjar, eldri borgarar eða einstæðir foreldrar. Eftir hrun kemur hingað líka fólk sem er búið að missa allt sitt, venjulegt millistéttarfólk sem áður hefur séð um sig en stendur núna frammi fyrir því að það á ekkert að borða.“
Fjöldi þeirra sem þurfa mataraðstoð frá Mæðrastyrksnefnd, hefur tvöfaldast á síðustu mánuðum, 598 heimili fengu aðstoð í gær, að sögn Ragnhildar Guðmundsdóttur, formanns nefndarinnar. „Fólk á erfitt, endarnir ná ekki saman og þá er eina ráðið að fara til hjálparsamtaka. Þörfin er mikil. Gagnrýna má hvort það á að hafa þetta form eða nota eitthvað annað, ég er ekki með neina hugmyndafræði í þeim efnum. En það blasir við okkur að fólkið þarf á þessari aðstoð að halda núna, það skiptir mestu máli í okkar huga.“