„Þetta snýst ekkert um vonda menn og góða. Þeir sem halda því fram hafa séð of mikið af kúrekamyndum. Það er bara þannig,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, á fjölsóttum borgarafundi í Stapanum um þá gagnrýni sem fram kom á fundinum á afstöðu stjórnvalda til álversframkvæmda í Helguvík.
„Varðandi Helguvík að þá vorum við ekki stuðningsmenn þess á þeim tíma,“ sagði Steingrímur er hann rifjaði upp afstöðu Vinstri grænna til fyrirhugaðs álvers Norðuráls. Margar af spám flokksmanna hefðu ræst. „Það skyldi þó aldrei vera,“ sagði Steingrímur.
„Það er ekkert upp á borði ríkisstjórnarinnar sem snýr að Helguvík [...] Það er bara veruleikinn [...] Ég hef skrifað fjölmörg ástarbréf og meðmælabréf,“ sagði Steingrímur er hann vék að viðleitni sinni til að tryggja lánsfé til virkjanaframkvæmda.
Fjármálaráðherra svaraði gagnrýni á afstöðu ríkisstjórnarinnar til álversframkvæmda í Helguvík með því að benda á að framkvæmdir á þessu sviði væru umdeildar víðar en á Íslandi.
„Þessi mál eru umdeild og erfið og þannig er það á byggðu bóli víðar en á Íslandi [...] Þetta snýst ekkert um vonda menn og góða. Þeir hafa séð of mikið af kúrekamyndum. Það er bara þannig,“ sagði Steingrímur.
Ráðherrann vék svo að hugmyndum um einkasjúkrahús á Suðurnesjum með þeim orðum að hann væri ekki mótfallinn því að skipt væri um mjaðmaliði í erlendum sjúklingum.