Hefur ekkert með ríkið að gera

Á álverslóðinni við Helguvík.
Á álverslóðinni við Helguvík. mbl.is/Golli

„Menn hafa bundið miklar vonir og væntingar við stór fjárfestingarverkefni, sérstaklega álver, sem hafa síðan tafist af ástæðum sem að mínu mati hafa bókstaflega ekkert með ríkisstjórnina að gera,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra að loknum borgarafundi um atvinnumál í Stapanum.

Föstum skotum var skotið að ríkisstjórninni og meintu aðgerðaleysi hennar í atvinnumálum Suðurnesja og tók Steingrímur á sig hitann og þungann af þeirri gagnrýni þar sem hann sat við hlið Kristjáns Möllers, þingmanns Samfylkingarinnar og fulltrúa Katrínar Júlíusdóttur iðnaðarráðherra á fundinum.

Steingrímur vísaði því að loknum fundi aðspurður á bug að tafir á framkvæmdum í Helguvík hefðu með ríkisstjórnina að gera. 

„Það er ekki hægt að kenna ríkisstjórninni um það þó að orkuöflunarþátturinn sé í óvissu, að menn hafi ekki náð samningum, að ekki hafi tekist að ljúka við skipulagsmál eða að sum fyrirtækjanna eigi í erfiðleikum með að fjármagna sig,“ sagði Steingrímur.

Umkenningarleikur hefur ekkert upp á sig

- Þú verst gagnrýndur harðlega á fundinum. Hvernig svararðu þeirri gagnrýni sem hér kom fram?

„Ég svaraði henni þannig að það hefði ekkert upp á sig að vera í einhverju karpi og umkenningarleik; við kæmust ekki hænufet með þeim hætti. Sumir tóku undir það, þar á meðal bæjarstjórarnir í Reykjanesbæ og Sandgerði. Ég bauð upp á samstarf stjórnvalda, bæjarfélaganna og heimamanna og tel það vænlegasta kostinn.

Svæðið hefur orðið fyrir áföllum. Héðan fór eitt stykki her og menn höfðu neitað að horfast í augu við að það væri að gerast og voru því vanbúnir þegar það gerðist. Hér fór stór fjármálastofnun á hliðina sem er Sparisjóður Keflavíkur. Ríkið mun endurfjármagna hana með miklum fjármunum þannig að þetta eru stóratburðir, stórir og erfiðir hlutir sem hér hafa gerst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert