„Þú verður að gefa okkur von og hvatningu til að vera hérna ef við eigum að borga okkar skatta til samfélagsins,“ sagði einn fundarmanna í Stapanum fyrir stundu og beindi orðum sínum til Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra. Hótaði maðurinn að taka þátt í að loka fyrir akvegi að Keflavíkurflugvelli þar til úrbætur væru gerðar.
Kvaðst maðurinn hafa lagt sömu hótun fram á borgarafundi í Stapanum fyrir þrem vikum og að fjöldi fólks hefði í kjölfarið haft samband við hann og boðist til að taka þátt í að loka fyrir aðgang að flugvellinum, í því skyni að þrýsta á stjórnvöld að draga úr niðurskurði á Suðurnesjum.
Kona sem kynnti sig sem Björg og kvaðst starfa sem ljósmóðir spurði Steingrím hvers vegna framlög til sjúkrastofnana væru alltaf miklu lægri á Reykjanesi en annars staðar.
Undarlegt væri að konum væri beint á Landspítalann til að fæða enda væri nærþjónustan ódýrari.
„Við viljum vita af hverju er ekki hlustað á þessar raddir?“ spurði Björg. „Menntunarstigið fer niður úr öllu valdi,“ sagði hún og benti á að mikið af heilbrigðisstarfsmönnum myndu yfirgefa Suðurnesin vegna niðurskurðar.