Íslenskir, bandarískir og sænskir líffræðingar rannsaka nú áhrif hitastigs og áburðar á lífríkið í 15 lækjum í Miðdal.
Tilgangurinn er einkum sá að leiða líkum að því hvaða áhrif hlýnandi loftslag mun hafa á lífríki jarðar. Miðdalur, sem er einn Hengilsdalanna þriggja, er kjörinn vettvangur slíkra rannsókna, en þar er einstök fjölbreytni. Hitastig lækjanna er frá 5-45°C. Rannsóknin fékk 1,2 milljónir dollara í styrk frá bandarískri vísindastofnun, að því er fram kemur í umfjöllun um þessar rannsóknir í Morgunblaðinu í dag.