LÍÚ: Barátta við ríkisstjórnina

Adolf Guðmundsson, formaður LÍÚ.
Adolf Guðmundsson, formaður LÍÚ. mbl.is/Jakob Fannar

Allt frá því að núverandi ríkisstjórn komst til valda hefur mikilvægasta verkefni LÍÚ falist í því að berjast gegn illa ígrunduðum og óraunhæfum hugmyndum stjórnvalda.  Þetta kom fram í setningarræðu formanns LÍÚ, Adolfs Guðmundssonar, á ársfundi samtakanna í dag.

Grundvöllur aflamarkskerfisins geta brostið

Að sögn Adolfs er grundvöllur aflamarkskerfisins brostinn ef hugmyndir sjávarútvegsráðherra, Jóns Bjarnasonar,   um að auka aflaheimildir í þorski, ýsu, ufsa, gullkarfa og síld og selja þær, ná fram að ganga.

„Var þá skötuselsmálið ekki einstakt mál sem hafði ekkert fordæmisgildi? Á undanförnum árum höfum við dregið verulega úr veiðum úr mörgum fiskistofnum til viðhalda þeim og byggja þá upp. Við þekkjum öll hvað það hefur reynt á. Nú er árangur að nást varðandi þorskinn og við teljum óhætt að auka þorskveiðarnar - en til hvers var barist? Ef þessar hugmyndir ná fram að ganga er grundvöllur aflamarkskerfisins brostinn," segir Adolf.

Umræðan oftast neikvæð og snýst aðallega um kvótakerfið

Hann gerði umræðu um sjávarútvegsmál á Íslandi að umtalsefni í ræðu sinni. Þrátt fyrir að fjölmargir hafi lífsviðurværi sitt af sjávarútvegi sé umræðan um sjávarútveginn hér heima fyrir oftast neikvæð og snýst langmest um kvótakerfið og hvernig því skuli breyta.

„Margir sem þar koma að vilja breyta reglum þannig að þeir geti veitt án þess að kaupa eða vinna sér inn veiðiheimildir. Aðrir telja að með því að skattleggja sjávarútveginn sérstaklega verði hag þeirra betur borgið. Þeir hafa hinsvegar fæstir komið nærri sjávarútvegi eða látið sér detta það í hug.

Margir þessara aðila kveðast drifnir áfram af sanngirni, jafnræði og mannréttindum. Að vísu er þar oft á tíðum lítið rúm fyrir mannréttindi þeirra starfa í atvinnugreininni," segir Adolf.

Hann segir Íslendinga svo lánsama að verða að reka sjávarútveg sem skilar arði.

„Við höfum ekki efni á því að sjávarútvegurinn sé á ríkisframfæri eins og allt of mörg dæmi eru um annarsstaðar.

Aðferð okkar hefur verið sú að setja ábyrgðina á atvinnugreinina sjálfa. Mikil verðmæti liggja í aflaheimildum fyrirtækjanna enda leggja þær grunninn að rekstrarhæfi þeirra. Það er því hagur þeirra að nýta fiskistofnana á sjálfbæran hátt til langs tíma.

Það er vegna þessa sem íslenskir útvegsmenn hafa lengi verið talsmenn sjálfbærra og ábyrgra fiskveiða og verið tilbúnir til að draga úr veiðum ef ástand fiskistofnanna versnar. Þegar menn vita að þeir uppskera þegar ástandið batnar eru þeir viljugir til að taka á sig tímabundnar skerðingar.

Árangri og orðspori okkar má ekki kasta fyrir róða með upptöku og uppboði aflaheimildanna. Hlutverk okkar er að koma í veg fyrir það," segir formaður Landssambands íslenskra útgerðarmanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka