Starfsfólk Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja brá mótmælaspjöldum á loft er Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra gekk í pontu á opnum borgarafundi í Stapanum nú fyrir stundu. Steingrímur kvaðst hafa tölvupósta í fórum sínum sem sýndu fram á að Icesave-deilan hindraði erlendar fjárfestingar.
„Tröllasögur“ væru um að stjórnin ætlaði að rústa fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli. „Við erum ekki svo vitlaust að setja eitt á hausinn til að punga út fyrir því annars staðar,“ sagði ráðherrann. „Þetta er drullu erfitt en þetta mun samt takast,“ sagði Steingrímur um glímu ríkisstjórnarinnar við niðursveifluna.
Starfsfólkið er hvítklædd en á spjöldunum kemur fram hörð gagnrýni á fyrirhugaðan niðurskurð hjá stofnuninni.
Steingrímur sagði í ræðu sinni um atvinnumál að nóg væri komið af hnútukasti á milli hagsmunaaðila. Binda þyrfti enda á „umkenningarleik“ ríkisstjórnarinnar og einstakra bæjarfélaga. Vandinn á Suðurnesjum væri fjölþættur.
„Þetta er ekki bara slæmt atvinnuástand sem við erum að glíma við. Það eru líka þættir sem snúa að menntamálum [...] menntunarstig er lágt. Það er staðreynd að minnsta kosti þrjú sveitarfélög á svæðinu glíma við mikinn fjárhagsvanda,“ sagði Steingrímur.
Hann ræddi mál Verne Holding og benti þar á að málið væri snúið frá skattalegu sjónarhorni. Málið og ákvarðanir um undanþágur væru í „höndum hinna háu herra í Brussel“.
Skömmu áður en Steingrímur steig í pontu lét Kristján Möller, þingmaður Samfylkingar, þau orð falla að þótt hann vildi ekki álver í hvert bæjarfélag væri hann fylgjandi álversuppbyggingu í Helguvík.
„Nú er staðan einfaldlega svo erfið í landinu að við verðum að grípa öll tækifæri til atvinnusköpunar... Ekkert annað en aukin atvinna mun koma okkur út úr þessu... Þess vegna verða menn að einhenda sér í atvinnumálin af fullum krafti.“