„Við komum til þessa fundar með eindreginn samningsvilja en höfum orðið fyrir miklum vonbrigðum með ósveigjanlega og ósanngjarna afstöðu Evrópusambandsins og Noregs,“ segir Tómas H. Heiðar, formaður íslensku samninganefndarinnar í viðræðum um makrílveiðikvóta.
Viðræður Íslands, ESB, Færeyja og Noregs hófust í London á þriðjudag en þeim lauk síðdegis í dag. Í lok fundarins var ákveðið að halda makrílviðræðum áfram í tengslum við ársfund Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar, sem fer fram í London dagana 8.-12. nóvember nk.
„Noregur lagði til á fundinum að hlutur Íslands í makrílveiðunum á næsta ári yrði 3,1% og ESB lýsti sig fylgjandi þeirri tillögu. Við höfnuðum tillögunni að sjálfsögðu, enda er hún algjörlega óraunhæf og ekki í neinu samræmi við stórauknar göngur makríls í íslensku lögsöguna á undanförnum árum og stórkostlegt fæðunám hans þar,“ segir Tómas í svari við fyrirspurn frá mbl.is.
Hann segir ennfremur að nýlegar rannsóknir vísindamanna frá Íslandi, Noregi og Færeyjum bendi til þess að um 23% af makrílstofninum hafi haldið sig innan íslensku lögsögunnar á fæðuöflunartímanum í ár, í fjóra til fimm mánuði. Hafrannsóknastofnunin hafi áætlað að makríllinn hafi þyngst um 25% innan íslenskrar lögsögu.
Til samanburðar sé rétt að hafa í huga að makrílveiðar Íslands í ár séu um 17% af samanlögðum kvótum strandríkjanna fjögurra. Samninganefndin hafi lagt þessa hlutdeild til grundvallar í samningaviðræðunum en lýst yfir sveigjanleika til að lækka þessa hlutdeild nokkuð gegn aðgangi að lögsögu ESB og Noregs ef það yrði til þess fallið að stuðla að lausn málsins.
Afstaða ESB sætir furðu
„Afstaða Norðmanna kemur okkur ekki svo mjög á óvart enda hafa þeir aldrei sýnt neinn sveigjanleika í málinu. Afstaða ESB sætir hins vegar furðu í ljósi þess að við höfðum átt mjög uppbyggilegar viðræður við ESB um hlutdeild Íslands á þriðjudag sem bentu eindregið til þess að ekki væri mjög langt á milli þessara aðila. Við tókum þátt í þessum viðræðum af fullum heilindum en því miður virðist sem það hafi ekki að öllu leyti verið gagnkvæmt,“ segir Tómas.
Þegar öllu sé á botninn hvolft þurfi sú staðreynd, að samkomulag hafi ekki náðst um stjórn makrílveiðanna á næsta ári, þ.á m. um skiptingu kvóta milli strandríkjanna fjögurra, hins vegar ekki að koma á óvart. Þegar litið sé til þess að það hafi tekið ESB og Noreg mörg ár að viðurkenna stöðu Íslands sem strandríkis hvað makríl varði, þrátt fyrir órækar sannanir fyrir síaukinni makrílgengd í íslensku lögsöguna, sé ef til vill óraunhæft að búast við að sömu aðilar fallist með skjótum hætti á sanngjarna hlutdeild Íslands í makrílstofninum.
„Við þurfum sennilega að leyfa málinu að þroskast og veita ESB og Noregi svigrúm til að venjast og sætta sig við breytt útbreiðslu- og göngumynstur makrílsins.“
Hins vegar sé mikilvægt að ná sem fyrst samkomulagi um heildstæða stjórnun makrílveiðanna til að tryggja að þær verði sjálfbærar og ábyrgar.
Hann segir íslensku samninganefndina hafa ítrekað að til þess að svo megi verða þurfi öll strandríkin að vera reiðubúin til að leggja sitt af mörkum og draga úr sínum veiðum.
Áhersla lögð á virkt og gagnsætt eftirlit
Tómast segir að á nýafstöðnum fundi hafi samninganefnd Íslands lagt áherslu á virkt og gagnsætt eftirlit með makrílveiðunum til að koma í veg fyrir veiðar umfram aflaheimildir. Forsenda þess að unnt sé að ganga frá samkomulagi um heildarstjórnun makrílveiða sé að tryggja að einstök strandríki veiði ekki umfram kvóta.
Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) hafi áætlað að árleg umframveiði á makríl á undanförnum árum hafi verið rúm 90.000 tonn að meðaltali. „Við gagnrýndum ESB á fundinum fyrir að tryggja ekki gagnsætt eftirlit með makrílveiðunum hjá aðildarríkjum sambandsins í suðri en rökstuddur grunur er um verulega umframveiði á makríl á Spáni og í Portúgal,“ segir hann.
Í lok fundarins var ákveðið að halda makrílviðræðum áfram í tengslum við ársfund Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC) sem fer fram í London dagana 8.-12. nóvember nk.