Það getur engan veginn talist eðlilegt að aðilar utan skólanna eigi sérstaka kröfu á að starfa innan þeirra og tryggja verður sjálfstæði skólastarfs í landinu með öllum ráðum. Þetta kemur fram í opnu bréfi andlegs þjóðarráðs bahá’ía á Íslandi til mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar.
Ennfremur segir í bréfinu: „Á hinn bóginn er mikilvægt að skólar njóti óskoraðs frelsis til að styðja við menntun og upplýsingu nemenda sinna, þar á meðal með almennri fræðslu um helstu trúarbrögð og trúarhugmyndir mannkyns. Í slíkri fræðslu gæti til dæmis falist að bjóða talsmönnum trúar- og lífsskoðunarhópa að kynna trú sína og skoðanir auk vettvangsferða nemenda til þess að kynnast starfi þeirra. Slík fræðsla víkkar ekki aðeins sjóndeildarhring barnanna heldur getur einnig komið í veg fyrir þá fordóma sem fáfræði um fjölbreytilegan andlegan arf mannkynsins elur af sér.“