Stjórnvöld verða að axla ábyrgð

Starfsmenn Mæðrastyrksnefndar vinna óeigingjarnt starf við að aðstoða þá sem …
Starfsmenn Mæðrastyrksnefndar vinna óeigingjarnt starf við að aðstoða þá sem minna mega sín mbl.is/Golli

Það er vont til þess að vita til þess að fólk skuli nú standa í biðröðum fyrir utan hjálparstofnanir til að sækja sér nauðþurftir. Við getum ekki og megum ekki sætta okkur við þetta, segir Guðbjartur Hannesson, félags- og tryggingamálaráðherra. Hann segir að stjórnvöld verði að axla ábyrgð og finna leiðir til að útrýma þessum biðröðum. Það eigi ekki að vera hlutverk hjálparsamtaka að gefa fólki mat. Stjórnvöld verða að sjá til þess að ekki sé þörf fyrir aðstoð af þessu tagi.

Guðbjartur tók þátt í fjölmennum samráðsfundi hjálparsamtaka og opinberra aðila sem fram fór á Grand hótel í Reykjavík í dag. Rætt var um fyrirkomulag hjálparstarfs við þá sem standa höllum fæti og hvernig best verði að því staðið.

„Á þeim erfiðu tímum sem við glímum nú við í samfélaginu í kjölfar efnahagshrunsins hefur reynt verulega á starfsemi þriðja geirans. Fjöldi þeirra sem leitar stuðnings og aðstoðar hjá frjálsum félagasamtökum hefur aukist verulega.

Vandamál fólks sem tengjast afleiðingum efnahagshrunsins eru margvísleg. Sumir leita til frjálsra félagasamtaka eftir félagslegum og sálrænum stuðningi. Vaxandi hópur fólks nær ekki endum saman og þarf að leita til hjálparstofnana eftir fjárhagslegum stuðningi sem veittur er í ýmsu formi, allt frá beinum fjárstyrk til fata- og matargjafa og úthlutun annarra nauðsynja.

Það eru þessi síðasttöldu verkefni sem erfitt er að sætta sig við að þriðji geirinn þurfi að sinna í samfélagi eins og okkar sem er í raun og veru velmegandi og ríkt, þrátt fyrir kreppuna. Við erum að tala um fátækt, raunveruleika þar sem hópur fólks býr við það mikla neyð að ráðstöfunartekjur duga ekki fyrir brýnustu nauðsynjum.“

Sjá ræðu Guðbjarts 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert