Þrjú ný mál hafa í síðasta mánuði komið inn á borð fagráðs
þjóðkirkjunnar vegna ásakana um kynferðisbrot. Þrír einstaklingar hafa
leitað til fagráðsins og eru ásakanirnar á hendur þremur prestum.
Enginn prestanna hefur áður komið við sögu hjá fagráðinu. Greint er frá þessu í Fréttablaðinu í dag.
Einn
prestanna sem um ræðir er enn að störfum innan kirkjunnar. Einn er
hættur störfum og sá þriðji er látinn. Málin eru öll það gömul að þau
eru komin út fyrir mörk refsiréttar, en eitt þeirra átti sér stað þegar
þolandi var barn að aldri. Sá prestur er hættur störfum. Hin tvö eru á
bilinu sex til tíu ára og voru báðir þolendur fullorðnir að sögn Gunnars
Rúnars Matthíassonar, formanns fagráðs Þjóðkirkjunnar, í samtali við Fréttablaðið.