Veðurfræðingar á Veðurstofu Íslands hafa sent frá sér viðvörun vegna veðurútlitsins um helgina. Á laugardag má búast við norðaustan hvassviðri eða stormi við austur- og norðurströndina ásamt talsverðri ofankomu. Færð getur spillst á skömmum tíma og lítið eða ekkert ferðaveður verður víða um land.
Á morgun er fyrsti dagurinn sem veiða má rjúpu og eflaust margir sem hafa hugsað sér til hreyfings.
Er fólk sem hyggur á útivist um helgina hvatt til að fylgjast grannt með veðurspám og veðurfréttum. Ekki sé nóg að stóla eingöngu á sjálfvirkar staðarspár.
„Á föstudaginn mun djúp lægð nálgast úr suðri og því er spáð vaxandi austan- og norðaustanátt á öllu landinu.
Á laugardag er búist við norðaustan hvassviðri eða stormi við austur- og norðurströndina ásamt talsverðri ofankomu. Einnig má búast við svipaðri eða meiri veðurhæð á fjöllum. Færð getu spillst á skömmum tíma og lítið eða ekkert ferðaveður verður víða um land.
Heldur hægari vindur verður sunnantil á landinu og úrkomulítið. Á sunnudag dregur úr vindi og ofankomu fyrir norðan og ætti víðast hvar að vera komið skaplegt veður seinnipartinn," segir í viðvörun sem veðurfræðingar hafa sent frá sér.