Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra setti að líkindum fram nýyrði í íslensku á fundinum um atvinnumál á Suðurnesjum í dag en þá ræddi hann um „umkenningarleik“ þar sem hver benti á annan. Hugtakið er bein þýðing á enska hugtakinu „blame game“ sem repúblikanar notuðu eftir fellibylinn Katrínu.
Repúblikanar, eða réttara sagt stjórn George W. Bush þáverandi forseta, voru sem kunnugt er harðlega gagnrýndir fyrir viðbrögð þeirra við fellibylnum.
Var þeim meðal annars gefið að sök að hafa veikt almannavarnarkerfi með því að koma fyrir pólitískum samherjum í stað sérfræðinga og þannig óbeint stuðlað að veiku flóðvarnarkerfi við New Orleans.
Snerust repúblikanar þá til varnar með hugtakinu „blame game“ en með því var gagnrýnin sett í búning einskonar ásakanaleiks og með því gefið til kynna að hún væri meira kapp en ígrunduð umræða.
Hvort Steingrímur sæki fyrirmynd í hugtakið skal ósagt látið en hitt er ljóst að hér er bein þýðing á ferð. Með hugtakinu á Steingrímur við að hagsmunaaðilar og fulltrúar stjórnvalda og bæjarfélaga á Reykjanesjum skelli skuldinni hver á annan þegar atvinnumál á Suðurnesjum ber á góma.