Dagana 14. til 26. október sl. fóru um 420 bílar að meðaltali á sólarhring um Héðinsfjarðargöngin. Athygli vekur að á sama tíma hefur svipaður fjöldi farið um Múlagöngin eða um 443 bílar að meðaltali á sólarhring.
Í frétt frá Vegagerðinni segir að mikil fylgni sé á milli umferðarinnar um Héðinsfjarðargöng og Múlagöng.
Heldur hefur dregið úr umferð frá því göngin voru opnuð, en mjög margir óku um göngin fyrstu helgarnar eftir að þau voru opnuð þann 2. október sl.
Ef áætla má að svipuð umferð hefði farið um Múlagöng árið 2010 og árið 2009 (sbr. þróun undanfarin ár) þ.e.a.s. ef Héðinsfjarðargöng hefðu ekki komið til, fæst það út að um 38% umferðaraukning hefur orðið um Múlagöng síðustu tvær vikurnar.