Sveitastjórn Vopnafjarðarhrepps hefur fengið þau skilaboð frá Heilbrigðisstofnun Austurlands að ekki sé annað í stöðunni en að loka Sundabúð, legudeild HSA á Vopnafirði þar sem 11 vistmenn búa. Þetta kemur fram í bréfi sem oddviti Vopnafjarðarhrepps, Þórunn Egilsdóttir hefur ritað þingmönnum Norðausturkjördæmis.
„Ef að verður er ljóst að ætlunin er að flytja viðkomandi vistmenn hreppaflutningum um háa fjallvegi til annarra sveitarfélaga en þeir hafa eytt ævistarfi sínu í. Hér er um stóran vinnustað að ræða með 15 stöðugildum sem 23 einstaklingar sinna.
Allir starfsmenn utan einn eru konur. Hlutfall menntaðra sjúkraliða er 68% eða það hæsta sem þekkist á landinu. Starfsstöðin er vel rekin og fagleg vinna til fyrirmyndar. En reyndin er sú að framlög til stofnunarinnar eru lægri en annars staðar þekkjast og því allir útreikningar engan veginn sanngjarnir.
Hvert rúm á Vopnafirði er reiknað í framlögum á kr. 5.267 þús., á meðan Neskaupstaður fær kr. 7.205 þús., Egilsstaðir kr. 7.702 þús. og Seyðisfjörður kr. 7.794 þús. Þetta þýðir að ef Sundabúð fengi sömu meðferð í útreikninum og t.d. stofnunin á Egilsstaðstöðum yrði framlagið hér 26.776 þús. kr. hærra. Það segir sig sjálft að þetta breytir öllum rekstrargrundvelli og þessu þarf að breyta.
Auk þess bendum við á að með því að taka sjúkrarúm út af deildinni skerðast framlög um kr. 12.593 þús. Rúm þetta hefur ekki einungis aukið á öryggi íbúanna heldur líka sparað ríkinu töluverðar fjárhæðir þar sem möguleiki er á að láta sjúklinga liggja þar sem annars þyrfti að senda með sjúkraflugi. Einnig hefur verið tekið á móti sjúklingum frá FSA eftir aðgerðir og þeir fengið aðhlynningu hér.
Grunnframlagið þarf að leiðrétta svo hægt sé að gera sanngjarnan samanburð á rekstri legurýma innan HSA.
Ef af þessum aðgerðum verður er þetta harkaleg aðför að samfélagi okkar sem engan veginn er ásættanleg. Allur samanburður við Vopnafjörð er erfiður þar sem hér eigum við um langan veg að fara til að sækja þjónustu utan héraðs og engan vegin tryggt að það sé alltaf hægt," segir í bréfi til þingmanna kjördæmisins.