Atvinnulausum á Vestfjörðum fjölgar um rúman helming í kjölfar fjöldauppsagna þar í dag. Íbúar á Flateyri eru slegnir yfir að gripið hafi verið til fjöldauppsagna að sögn Finnboga Sveinbjörnssonar, formanns Verkalýðsfélags Vestfirðinga.
Fiskvinnslufyrirtækið Eyraroddi á Flateyri og jarðverktakafyrirtækið Ósafl tilkynntu á starfsmannafundum í hádeginu í dag að öllu starfsfólki fyrirtækjanna yrði sagt upp störfum frá og með 1. nóvember næst komandi. Alls eru þetta rúmlega 60 einstaklingar sem munu missa vinnuna, 42 hjá Eyrarodda og 20 hjá Ósafli.
Rúmlega tvö hundruð manns búa á Flateyri og því hljóta uppsagnir 42 bæjarbúa vera mikið áfall fyrir bæinn. „Flateyringar hafa hálfpartinn beðið eftir að eitthvað þessu líkt gæti gerst en það er enginn nokkur tímann fyllilega undirbúinn fyrir að lifibrauðinu sé kippt undan honum.
Þá segir hann að það hafi komið starfsmönnum jarðverktakafyrirtækisins Ósafls nokkuð í opna skjöldu að brugðið hafi verið til þess ráðs nú að segja upp fólki. Vonir hafi verið bundnar við að aukinn kraftur yrði settur í framkvæmdir við snjóflóðagarð í Bolungarvík en fyrirtækið hafi ekki talið sig geta unnið að þeim í vetur. Því hafi verið gripið til uppsagna nú.
„Viðbrögð okkar eru að fara yfir réttindamál með þeim starfsmönnunum sem lenda í þessum uppsögnum. Í svona hópuppsögnum eru ákveðnar leikreglur sem gilda. Fyrirtækin hafa þá þrjátíu daga frest til þess að bregðast við og reyna að lágmarka skaðann eins og hægt verður,“ segir Finnbogi.
Auka þarf aflaheimildir
Finnbogi segir hvað varðar fiskvinnsluna að staðan sé einfaldlega sú að þær séu víða hráefnislausar. „Ef þær eiga ekki kvóta þá er mjög erfitt að kaupa fisk á markaði hér á landi. Ef ekkert verður gert í að auka aflaheimildir eins og félagið ályktaði um í gærkvöldi þá komum við til með að sjá fleiri lokanir hjá þeim vinnslum sem ekki eiga kvóta,“ segir hann.
Hann segir stjórnvöld verða að taka ákvörðun um aflaheimildir, ekki gangi að halda fólki í óvissu lengi. „Það er alveg deginum ljósara að það fær enginn leigðar veiðiheimildir eins og staðan er í dag,“ segir Finnbogi.