Stjórn Sambands ungra framsóknarmanna hefur beðist afsökunar á orðalagi í ályktun sem sambandið sendi frá sér nýverið. Þá var talað um „Heyrnardeyfð ríkisstjórnarinnar,“ en stjórnin segir að ekki hafi verið ætlunin að móðga heyrnarskerta eða heyrnarlausa.
Hér eftir fer tilkynning stjórnar SUF í heild:
„Stjórn Sambands ungra framsóknarmanna biðst afsökunar á óviðeigandi orðalagi sem notað var þegar send var út ályktun undir yfirskriftinni “Heyrnadeyfð ríkisstjórnarinnar”. Tilgangurinn með þeirri ályktun var síður en svo að móðga á nokkurn hátt heyrnaskerta og heyrnalausa.
Stjórn SUF getur einnig vel skilið að fólki þykir það mjög miður að vera á nokkurn hátt líkt við núverandi ríkisstjórn Íslands, og mun hér eftir tileinka sér varfærnara orðalag í þeim efnum.
Stjórn SUF ítrekar þó gagnrýni sína sem kemur fram í ályktuninni að hún taki nú þegar til skoðunar allar þær hugmyndir sem fram hafa komið.
Það á engu að breyta hvaðan gott kemur!“