Engar skemmdir af völdum skjálfta

Nokkrir skjálftar yfir 3 stig hafa mælst í kringum Blöndulón
Nokkrir skjálftar yfir 3 stig hafa mælst í kringum Blöndulón Af vef Veðurstofu Íslands

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra ásamt Landsvirkjun og Veðurstofu Íslands fylgist náið með skjálftahrinunni undir Blöndulóni. Engin merki hafa fundist um skemmdir vegna jarðskjálftanna en fjöldi skjálfta hefur mælst á þessu svæði frá því á þriðjudagsmorgun.

Hafa nokkrir skjálftar mælst af stærðinni 3 og yfir. Þar sem stíflur við Blöndulón og mannvirki Landsvirkjunar eru á þessu svæði er sérstaklega vel fylgst með skjálftunum og áhrifum þeirra, samkvæmt upplýsingum frá Almannavörnum.

Blöndulón var myndað við virkjun Blöndu en lónið liggur á Auðkúlu- og Eyvindarstaðaheiði. Lónið var myndað sumarið 1991 er vatni var safnað í það í fyrsta sinn til miðlunar fyrir Blönduvirkjun.

Árið 1996 var yfirfall hækkað, jókst þá flatarmál lónsins úr 41 ferkílómetra í 57 ferkílómetra og náði það fullri stærð. Lónið liggur í tæplega 500 m hæð yfir sjó.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert