Rætt var um samgöngumál í Eyjafirði og nágrenni í víðu samhengi á fundi sem Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar stóð fyrir í vikunni.
Ögmundur Jónasson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra flutti ávarp á fundinum en auk hans töluðu þeir Jón Þorvaldur Heiðarsson, frá Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri, sem ræddi almenningssamgöngur í Eyjafirði, Ásgeir Ívarsson, frá verkfræðistofunni Mannviti, sem fjallaði um tækifæri Eyjafjarðar sem tengjast nýjum orkugjöfum og Hjalti Páll Þórarinsson greindi frá verkefnum og framtíðarhorfum varðandi vaxtarsamning Eyjafjarðar, samkvæmt vef samgönguráðuneytisins.
Í ávarpi sínu rifjaði Ögmundur Jónasson upp í byrjun að samgöngur snertu öll svið þjóðfélagsins og að margs konar samfélagsleg markmið kæmu fram í stefnu samgönguáætlunar sem snerust meðal annars um að byggja upp samgöngukerfi á hagkvæman hátt og leggja með því grunn að búsetu og velferð.
Hann sagði samgönguframkvæmdir gjörbreyta aðstöðu byggðarlaga og minntist á Héðinsfjarðargöngin í því sambandi. Sagði hann forvitnilegt að fylgjast með niðurstöðum rannsóknar Háskólans á Akureyri á áhrifum ganganna. Einnig minntist ráðherra á strandsiglingar og nýlega skýrslu sem benti til þess að þær gætu verið hagkvæmar. Sagði hann næsta skref að kanna hug fyrirtækja á þessu sviði til að kanna til hlítar hvort unnt væri að taka þær upp að einhverju leyti á ný.