Hæstiréttur staðfestir framsal til Póllands

Hæstiréttur.
Hæstiréttur. mbl.is/GSH

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héaðsdóms Reykjavíkur um að framselja pólskan ríkisborgara til heimalandsins að beiðni pólskra yfirvalda. Maðurinn sem um ræðir er fertugur að aldri og hefur búið hér í fimm ár. Hann var árið 2005 dæmdur í sjö mánaða skilorðsbundið fangelsi í Póllandi og til að greiða skaðabætur vegna peninga sem hann hafi svikið úr viðskiptavini.

Hafði hann fengið konu til að láta sig fá peninga til að kaupa efni í hitakerfi en hvorki keypt efnið né endurgreitt konunni. Átti hann að greiða henni skaðabætur fyrir fimm árum. Þess í stað fór hann til Íslands og telja pólsk yfirvöld að með því hafi hann rofið skilorðið.

Málið hefur verið í kerfinu hér á landi í talsverðan tíma en maðurinn greiddi skaðabæturnar í febrúar á þessu ári. Hins vegar telja pólsk yfirvöld að hann hafi átt að greiða þær haustið 2005 og því falli þau ekki frá framsalsbeiðninni.

Maðurinn benti á það fyrir dómi  að hann búi nú með unnustu sinni hér á landi og hafi unnið við pípulögn hjá sama fyrirtæki frá júní 2007, en hann sé lærður í þeirri iðngrein.

Hann hafi hvorki sætt refsingu áður en né eftir að hann hlaut refsidóminn sem um ræðir. Hann hafi ekki reynt að komast undan réttvísinni í heimalandi sínu, heldur flust hingað til lands að leita sér atvinnu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert