Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og VG í borgarráði óttast að safnkostur Orkuveitu Reykjavíkur liggi undir skemmdum ef ekkert verður aðhafst, en starfsmönnum Orkuheima var sagt upp fyrr í mánuðinum.
Í bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokks og VG í borgarráði segir: „Nú þegar fræðslu- og ferðaþjónustuverkefni hafa verið aflögð af hálfu Orkuveitu Reykjavíkur er óskað eftir upplýsingum um möguleg viðbrögð Reykjavíkurborgar. Ljóst er að mikill safnkostur liggur undir skemmdum ef ekkert verður aðhafst og sú ákvörðun að loka gestamóttöku í Hellisheiðarvirkjun getur haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir ferðaþjónustuaðila. Nauðsynlegt er að skoða gaumgæfilega hvort menningar- og ferðamálasvið getur með einhverjum hætti tekið við safnkosti í Elliðaárdalnum til varðveislu og mögulega fræðslu í samstarfi við menntasvið. Að sama skapi þarf að gera ráðstafanir til að tryggja að áfram geti innlendir og erlendir ferðamenn kynnt sér jarðvarmaverkefnin í kringum höfuðborgarsvæðið enda fer áhugi fyrir slíku sívaxandi.“