Lengri bótatími kostar milljarð

Guðbjartur Hannesson
Guðbjartur Hannesson Ómar Óskarsson

Það kostar um einn milljarð króna að lengja tímabilið sem fólk á rétt til atvinnuleysisbóta úr þremur árum í fjögur. Guðbjartur Hannesson, heilbrigðis- og félagsmálaráðherra, sagði á ársfundi Vinnumálastofnunar í dag að hann væri tilbúinn til að leggja fram frumvarp um lagabreytingu í þessa veru.

Nú er að störfum samráðshópur stjórnvalda með samtökum aðila vinnumarkaðarins þar sem skoðuð er reynsla af framkvæmd laganna um atvinnuleysistryggingar. Guðbjartur sagði að á heildina litið væri það mat manna að lögin hefðu reynst vel. Ýmis atriði væru þó þar til skoðunar, þar á meðal bráðabirgðaákvæði sem sett var um hlutabætur fyrir tveimur árum.

„Rætt hefur verið um að lengja tímabilið sem fólk á rétt til atvinnuleysisbóta. Ég hef þegar sagst reiðubúinn að lengja það úr þremur árum í fjögur. Áætlað er að kostnaðarauki Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna þessa verði um einn milljarður króna á næsta ári. Á móti kemur að þetta mun létta byrðar sem annars lentu hugsanlega á sveitarfélögunum. Í tengslum við þetta vil ég ræða við sveitarfélögin um mögulega hækkun framfærsluviðmiða þar sem sá hópur sem þarf alfarið að treysta á framfærslu sveitarfélaganna er í afar erfiðri stöðu,“ sagði Guðbjartur.

Guðbjartur  sagðist vilja efla hlutverk Vinnumálastofnunar á sviði starfsendurhæfingar, enda aukist mikilvægi þessa vinnumarkaðsúrræðis við núverandi aðstæður í samfélaginu.

Ráðherra sagði glímuna við atvinnuleysi vera eitt af mikilvægustu verkefnum samfélagsins. Að sporna við því, vinna gegn neikvæðum afleiðingum þess með því að halda fólki virku, efla það til þátttöku á vinnumarkaði og veita því aðstoð til að ná þar fótfestu á ný.

Hann gerði að umtalsefni nýútkomna skýrslu Norðurlandaráðs um stöðu ungs fólks á Norðurlöndunum sem misst hefur atvinnuna. Skýrslan var gerð samkvæmt ákvörðun norrænna atvinnu- og menntamálaráðherra að frumkvæði þáverandi félags- og tryggingamálaráðherra, Árna Páls Árnasonar.

Í skýrslunni kemur fram að vandinn sé mestur hjá þeim sem hafa stutta skólagöngu að baki, þeim sem komast ekki inn á vinnumarkaðinn að skólagöngu lokinni eða missa vinnu eftir mjög skamman tíma á vinnumarkaði. Félagsleg og sálræn vandamál samfara atvinnuleysi eru þekkt og vandi fólks eykst, því lengur sem það er án atvinnu. Þessu fólki getur reynst mjög erfitt að ná fótfestu á vinnumarkaði, jafnvel þótt atvinnuástand batni og næg störf séu í boði. Ráðherra sagði að í ljósi þessa væri mjög þýðingarmikið að fólki standi til boða öflug, atvinnutengd endurhæfing sem í daglegu tali er nefnd starfsendurhæfing.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert