Aðalfundur LÍÚ samþykkti ályktun þar sem mótmælt er harðlega hugmynd sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að taka fyrirhugaða aukningu aflaheimilda í þorski, ýsu, gullkarfa, ufsa og síld af útgerðum og selja þær öðrum.
Aðalfundi Landssambands íslenskra útvegsmanna lauk í dag. Alls voru átta tillögu samþykkar á fundinum - allar samhljóða.
Aðalfundurinn skoraði á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að draga til baka reglugerð um bann við dragnótaveiðum. Fundurinn mótmælti harðlega þeirri ákvörðun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að gefa ekki út aflamark í úthafsrækju fyrir fiskveiðiárið 2010/2011. Þá mótmælti fundurinn mismunun milli krókaaflamarksbáta og aflamarksbáta, m.a. hvað varðar línuívilnun, útflutningsálag og slægingarstuðla.
Aðalfundur ályktaði sérstaklega um makríl, en fundurinn „krefst þess að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafi samráð við samtökin við endurskoðun reglugerðar um makrílveiðar tímanlega fyrir næstu vertíð, en afar mikilvægt er að útgerðum verði gert kleift að skipuleggja veiðarnar og gera þannig sem mest verðmæti úr veiddum afla. Til þess að svo megi verða þarf að setja aflamark á skip. Jafnframt verði tryggt að nýir aðilar geti komið að þessum veiðum og að hluti aflamarksins verði ætlaður þeim.“
Aðalfundurinn telur óráðlegt að sameina sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og
iðnaðarráðuneytið þannig að einungis verði eitt atvinnuvegaráðuneyti á
Íslandi. „Miðað við mikilvægi atvinnulífsins og frekari uppbygginu þess
er nauðsynlegt að áfram verði a.m.k. tvö ráðuneyti sem hafa með
atvinnumálin að gera.“