Umbótanefnd Samfylkingarinnar vinnur nú við að gera úttekt á starfi og starfsháttum flokksins í aðdraganda bankahrunsins 2008 og er áætlað að hún skili af sér áliti þann 15. nóvember næstkomandi. Upphaflega átti nefndin að skila niðurstöðum 15. þessa mánaðar, en sú dagsetning var þó einungis til bráðabirgða.
„Fókusinn er á stjórnarþátttöku Samfylkingarinnar. Markmiðið er að greina ábyrgð flokksins á því sem gerðist fyrir hrunið og í framhaldinu koma með tillögur um breytingar á starfsháttum, stefnumálum, uppbyggingu, skipulagi og ýmsu slíku. Við erum ekki að velta vöngum yfir því hvort að þessi eða hinn ráðherra sé sekur um eitthvað eða ekki. Þetta eru spurningar sem fólk verður að takast á við sjálft, og sem flokkurinn getur í einhverri mynd getur tekist á við sjálfur,“ segir Jón Ólafsson, heimspekiprófessor og einn fjögurra verkstjóra í umbótanefndinni.
Jón segir að það hvarfli ekki að honum að allir verði sammála um niðurstöðum nefndarinnar, enda sé Samfylkingin hópur fólks með ólík viðhorf til hlutanna. Þá segir hann að ef fólk hefur áhuga á því að ganga í gegnum svona greiningu og vilji reyna að læra af fortíðinni þá ætti enginn að verða stressaður fyrir birtingu niðurstaðnanna. „Á hinn bóginn má þetta ekki vera neitt bitlaust snakk.“
Aðspurður hvort að aðrir stjórnmálaflokkar eigi að fylgja fordæmi Samfylkingarinnar í þessum efnum segir Jón: „Ég held að stjórnmálaflokkur sem hefur áhuga á því að ná tökum á sjálfum sér aftur eftir þessar hamfarir hefði gott að því að fara gaumgæfilega í gegnum sín mál, fortíðina og allt það. Það hefur enginn gert neitt í líkingu við þetta, en það er líka bara áhætta og þannig er lífið. Maður verður að taka áhættu til að ná einhverjum árangri.“