Mr. X kaupir raðhúsalengju

Guðmundur Gunnarsson, formaður RSÍ.
Guðmundur Gunnarsson, formaður RSÍ. mbl.is

Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, segir að nú sé gósentíð fyrir menn sem miði rekstur fyrirtækja sinna við að svíkja og pretta fólk og hafa af launamönnum réttindi eins og veikindadaga, orlof, greiða ekki nema hluta launa og gufa svo upp með því að skipta um kennitölu. Hann kallar þessa menn „góðkunningja“ eða Mr. X.

Guðmundur fjallar á heimasíðu Rafiðnaðarsambandsins um verkefni verkalýðsfélaga frá hruni. Hann segir að skrifstofa RSÍ fái um 100 símtöl á dag og um 50 tölvupósta auk beinna heimsókna.

„Þegar við vorum í reglulegu vinnustaðaeftirlit nýlega gengum við fram á einn Mr. X. Hann var búinn að kaupa raðhúsalengju og að fylla hana af mönnum sem allir voru á atvinnuleysisbótum og enginn þeirra var með réttindi, samt voru þeir að leggja raflagnir og vinna við smíðar, múrverk og pípulagnir. Mr. X sagði góðlátlega við okkur „Þetta eru nú bara vinir mínir, ha. Þeir eru bara að gera mér greiða, ég hjálpaði þeim um daginn, hvaða bull er þetta, ha strákar erum við ekki vinir?" Og mennirnir nikkuðu álútir og reyndu að láta sig hverfa. Oftast taka þeir á sprett þegar við mætum og gufa upp. Og Mr. X kveður okkur oft með þessum orðum, "Ef þið farið með þetta í fjölmiðla fer ég í meiðyrðamál við ykkur, ha."

Þessir Mr. X borga helst ekkert til samfélagsins og ef þeir borga í lífeyrisjóð þá er það einhverja af þessum erlendu sjóðum. Þeir reka sjálfa sig sem EHF og skella stundum einni greiðslu í stéttarfélagsgjaldi af 50 þús. kr. mánaðarlaunum og mæta svo og gera kröfur um styrki og bætur upp tugi þúsunda og aðgang að námskeiðum á styrkjum. Þegar þeim er bent á þær starfsreglur sem okkur starfsfólki eru settar af sambandsstjórn, þá sleppa þeir sér og setja allt á annan endann. Við sjáum þessa góðkunningja okkar svo fremsta í mótmælum á Austurvelli eða fremst á sviðinu í Háskólabíó með glampandi ræður, koma vel fyrir og tala flott. Ég er ekki að segja að allir á Austurvelli séu svona, en margir þeirra sem mest ber á. Við höfum einnig séð nokkra þeirra í spjallþáttum, þar sem þeir geta vart lokið setningu án þess að veitast að stéttarfélögunum og starfsfólki þeirra og kallað okkur verkalýðsmafíu, líklega vegna þess að við neituðum að brjóta reglur og moka fjármunum í þá,“ segir Guðmundur í pistli sínum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert