Sérstakur vinnuhópur innan sjávarútvegsráðuneytisins sem á að semja frumvarp um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða er að hefja störf. Ekki er gert ráð fyrir að þingmenn eigi sæti í hópnum, en samráð verður haft við stjórnarflokkana.
Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, fjallaði á aðalfundi LÍÚ í gær um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða.
„Næsta skref í endurskoðun á stjórn fiskveiða samanber stefnuyfirlýsingu
ríkisstjórnarinnar er að sérstakur starfshópur innan ráðuneytisins, með þátttöku
utanaðkomandi sérfræðinga, hefji vinnu við sjálfa frumvarpssmíðina.
Grunnskipulagningu er að mestu lokið og ég á ekki von á öðru en allt sé að
komast á fulla ferð. Skýrsla vinnuhópsins mun koma að fullum notum við þessa
vinnu. Ekki hefur enn verið útfært hvernig samráði við hagsmunaaðila verður
hagað meðan á vinnu þessari stendur en það verður viðhaft eftir því sem eðlilegt
og nauðsynlegt er. Vinnunni verður hraðað eftir mætti en á þessu stigi er ekki
hægt að tilgreina hvenær henni lýkur,“ sagði Jón.
Á vefnum skutull.is var í gær sagt frá því að Ólína Þorvarðardóttir verði „annar af tveim fulltrúum Samfylkingarinnar í vinnuhópi á vegum sjávarútvegsráðherra sem smíða á nýtt frumvarp um fiskveiðistjórnun.“ Samkvæmt heimildum mbl.is verða þingmenn ekki í vinnuhópnum sem kemur til með að semja sjálft frumvarpið, en hins vegar verði haft samráð við stjórnarflokkana um vinnuna.
Jón Bjarnason sagði í ræðu sinni á fundi LÍÚ að kominn væri tími fyrir nýjan sáttmála í sjávarútvegsmálum. „Það er komið að nýjum sáttmála í sjávarútveginum eða líkt og „new deal” sá er Roosvelt Bandaríkjaforseti kom á árið 1933. Hann sat undir því að vera kallaður kommúnisti í upphafi þess máls og þótti ekki lítið skammaryrði á þá daga í henni Ameríku. Ég held samt að það sé almenn og viðurkennd skoðun manna nú að einmitt þessi sáttmáli hafi leitt hina miklu þjóð út úr kreppunni miklu.“