Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað karlmann, sem er smitaður af lifrarbólgu C, af ákæru fyrir brot gegn valdstjórninni og sóttvarnalögum en maðurinn var sakaður um að hafa stungið blóðugum fingri upp í lögreglumann. Lögreglumaðurinn smitaðist ekki af sjúkdómnum.
Atburðirnir, sem ákæran spratt af, urðu á sunnudagsmorgni í maí á síðasta ári þegar lögreglan fékk tilkynningu um að maður hefði ógnað nágranna sínum með sverði.
Lögreglumenn fóru inn til mannsins sem var í annarlegu ástandi og var með blóðugan áverka á fingri. Maðurinn bar að fingurinn hefði óvart rekist utan í kinn lögreglumannsins þegar hann ætlaði að sýna honum sárið. Lögreglumaðurinn sagði hins vegar að maðurinn hefði snöggreiðst þegar hann var spurður um sárið, risið á fætur og stungið fingrinum upp í hann.
Maðurinn var ákærður fyrir að hafa á ófyrirleitinn hátt stofnað lífi og heilsu lögreglumannsins í augljósan háska enda hætta á því að lögreglumaðurinn smitaðist af lifrarbólgu C. Héraðsdómur taldi hins vegar ekki sannað, gegn neitun sakborningsins, að hannhefði stungið fingrinum upp í lögreglumanninn en ekki væri unnt að útiloka að blóð hafi borist í munn lögreglumannsins þegar maðurinn strauk fingri um andlit hans, eins og hann sjálfur og vitni hefðu lýst.