Tollgæslunni á Keflavíkurflugvelli var í fyrradag meinað að skoða flugvél, sem lenti á flugvellinum, fyrr en lögregla, sérsveitarmenn og dóms- og utanríkisráðuneytið höfðu skorist í leikinn. Þetta kom fram í fréttum Ríkisútvarpsins.
Fram kom að flugvélin er í eigu einkafyrirtækis en sex manna áhöfn vélarinnar framvísaði pappírum frá bandaríska hernum.
Að sögn Ríkisútvarpsins kom ekki fram hvaða farmur var í vélinni. Mennirnir í flugvélinni hleyptu á endanum tollvörðum um borð en ekkert óeðlilegt var um borð. Vélin hélt síðan áfram til Þýskalands.