Byggði vörnina á forsendubresti

Lögmaður hjóna sem töpuðu máli fyrir Héraðsdómi Suðurlands byggði vörn sína í málinu á þeirri forsendu að um væri að ræða lán í erlendri mynt en að forsendur fyrir lántökunni hefði brostið þar sem lánið hefði tvöfaldast og afborganir hækkað um 195%. Dómarinn féllst ekki á að rök lögmannsins um forsendubrest.

Hjón á Selfossi tóku lán í erlendri mynt í september 2007. Lánsupphæðin var 20 milljónir, en lánið stendur nú í tæplega 40 milljónum og krafðist Íslandsbanki að sú upphæð yrði viðurkennd fyrir dómi.

Í greinargerð fyrir dómnum sagði verjandi hjónanna að um sé að ræða gengistryggt lán í íslenskum krónur og sé verðtrygging skuldabréfsins ólögmæt á grundvelli laga um vexti og verðtryggingu. Engin erlend mynt hafi skipt um hendur.  Í dómnum segir að í munnlegum flutningi málsins við aðalmeðferð hafi lögmaður stefndu lýst því yfir og staðfesti sérstaklega aðspurður af dómara málsins að ekki væri lengur byggt á því að um íslenskt lán væri að ræða.  Þannig væri það nú viðurkennt af stefndu að um væri að ræða lán í erlendri mynt.

„Í málflutningi lögmanns stefndu við aðalmeðferð málsins þann 1. október sl. kom skýrlega fram að byggt væri á því af hálfu stefndu að um væri að ræða erlent lán. Telur dómurinn því að líta verði svo á að stefndu hafi horfið frá þeim málsástæðum sínum er byggja á því að um sé að ræða lán í íslenskum krónum með ólögmætri gengisverðtryggingu, jafnvel þó lögmaður stefndu hafi jafnframt sagt að ekki væri fallið frá neinum málsástæðum, en málatilbúnaður og málflutningur stefndu er að þessu leyti mótsagnakenndur og ómarkviss. Telur dómurinn að stefndu geti ekki viðurkennt að um lán í erlendri mynt sé að ræða en á sama tíma byggt varnir sínar áfram á því að lánið sé ólögmætt gengistryggt lán í íslenskum krónum,“ segir í dómnum.

Þar að auki telur dómurinn gögn málsins bera með sér að skuldabréfið feli í sér lán í erlendri mynt og vísar sérstaklega til þess að þegar lánið var greitt út nokkru eftir útgáfu skuldabréfsins miðaði útgreidd fjárhæð lánsins við hinn erlenda höfuðstól en ekki þá íslensku fjárhæð er tilgreind er sem jafnvirði hins erlenda höfuðstóls í skuldabréfinu sjálfu. 

Verjandi hjónanna lagði í vörn sinni áherslu á að forsendur lánsins hefðu brostið. Dómarinn fellst ekki á þessi rök.

„Almennar aðstæður í efnahagslífi á Íslandi geta að mati dómsins ekki talist til brostinna forsendna, enda gæti slík niðurstaða leitt til þess að allar fjárskuldbindingar gætu staðið meira og minna á brauðfótum ef breytingar yrðu í efnahagslífinu.  Þá er það ljóst að breytingar á gengi íslensku krónunnar gátu farið í hvora áttina sem var eftir að lánið var afgreitt, hvort heldur sem er lækkað eða hækkað. 

Í greinargerð stefnda kemur fram að hann hefði aldrei gert lánasamning á þeim grundvelli að greiðslubyrði hækkaði um 195% á rúmu ári.  Ljóst er þó að hann gerði samning um lán í erlendri mynt en hann gat ekki gengið þess dulinn að breytingar gætu orðið á gengi íslensku krónunnar, sem hann hefur tekjur sínar í, gagnvart þeim gjaldmiðlum sem lánið var veitt í.  Þykir engu breyta að greiningardeild bankans hafi spáð tiltekinni þróun á gengi, enda ljóst að spár geta brugðið til beggja vona.  Rétt er það að stefndi er neytandi og stefnandi fjármálafyrirtæki.  Það breytir hins vegar ekki því að stefndi gat ekki gert ráð fyrir því að gengi íslensku krónunnar héldist stöðugt á lánstímanum, en þess er að geta að lánið var til 25 ára og var gert ráð fyrir að það endurgreiddist með 300 mánaðarlegum afborgunum.“

Niðurstaða dómsins var því að hjónunum er gert að greiða 39.913.111 krónur, ásamt dráttarvöxtum.

Reiknað er með að málinu verði áfrýjað til Hæstaréttar, en Hæstiréttur hefur í máli þar sem deilt var um lögmæti myntkörfulána dæmt lánin ólögleg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka