Dýrbítur á ferð í Borgarfirði

Dýrbítur er á ferð í Borgarfirði.
Dýrbítur er á ferð í Borgarfirði. Jónas Erlendsson

„Ég óttast að þetta sé bara byrjunin,“ segir Ólafur Kristófersson, bóndi í Kalmannstungu í Borgarfirði, en dýrbítur hefur drepið þrjú lömb hjá honum í haust. Búið er að finna þrjár aðrar kindur neðar í sveitinni sem hafa verið drepnar af dýrbít. Ekki hefur enn tekist að vinna á dýrinu.

Kalmannstunga er stór jörð og féð gengur í skógivöxnu fjalllendi. Ólafur sagðist allt eins eiga von á að dýrbíturinn hefði drepið fleiri lömb, en það væri erfitt að finna þau.

„Refnum hefur stórfjölgað að undanförnu og það er greinilega skortur á æti. Þegar hann er búinn með rjúpuna og mófuglinn þá tekur þetta við. Þegar refurinn er byrjaður að drepa lömb sér til matar þá hættir hann því ekki svo glatt aftur. Hann er þá kominn með blóð á tönnina,“ sagði Ólafur.

Ólafur sagði að reynt hefði verið að ná dýrbítnum en það hefði ekki tekist. Hins vegar hefðu nokkrar tófur verið drepnar í haust. „Þetta er greinilega alvöru bítur. Þetta eru ekki neinir yrðlingar.“

Snorri Jóhannesson, bóndi og refaskytta á Augastöðum, segir að reynt hafi verið að liggja við hræin í von um að refurinn komi til baka til að éta meira, en það hafi engu skilað. 

„Það hefur sést tvisvar til dýrbítsins. Í bæði skiptin var bara eitt dýr á ferð. Í annað skiptið náðist að skakka leikinn. Maður truflaði dýrið, en það þurfti samt að lóga lambinu. Það var svo illa farið. Í hinu tilvikinu var á á milli og ekki hægt að gera neitt. Í öllum þessum tilvikum drepur dýrbíturinn lömbin, étur snoppuna og tunguna og kemur svo ekkert að þessu meir. Það er búið að liggja við hræin en það hefur engu skilað,“ sagði Snorri.

Vitað er um sex lömb sem dýrbíturinn hefur drepið. Þrjú fundust í Kalmannstungu, eitt neðar í Hvítársíðunni, eitt í Skorradal og eitt í Stafholtstungum.

„Þetta er vaxandi vandamál og verður vandamál til framtíðar miðað við hvernig er staðið að þessum málum öllum,“ sagði Snorri, sem óttast hvað gerist í vor þegar lömbin fari út. Sveitarfélögin hefðu litla fjármuni til að leggja í þetta. Síðan auðveldaði það ekki baráttuna þegar líffræðingar segðu að það væri engin þörf á þessum veiðum. „Eitt af því fyrsta sem menn byrjuðu að gera eftir landnám var að reyna að halda refnum niðri. Það hafa menn ekki gert af ástæðulausu,“ sagði Snorri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert