Hagnaður hjá Landspítala

Landspítalanum hefur tekist að spara í rekstri.
Landspítalanum hefur tekist að spara í rekstri. Júlíus Sigurjónsson

Landspítalinn var rekinn með 19 milljóna hagnaði á fyrstu níu mánuðum ársins. Fátítt er að spítalinn sé rekinn réttu megin við núllið.

Tekjur spítalans á fyrstu níu mánuðum ársins voru 30.098 milljónir en gjöld 30.091 milljónir. Þegar búið er að taka tillit til fjármagnstekna er útkoman hagnaður upp á 19 milljónir.

Starfsemi spítalans hefur dregist saman á þessu ári. Rannsóknum á rannsóknarsviði hefur fækkað um 18,5%, komum á bráðamóttöku hefur fækkað um 3,6%, komur á göngudeildum eru óbreyttar milli ára, en fjöldi legudaga er 7,4% færri en í fyrra. Stöðugildum við spítalann hefur fækkað um 7,1%.

Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans, segir í pistli á heimasíðu spítalans, að nýjustu mælingu Capacent sýni að traust á Landspítalanum hafi aukist og er nú næstmest af þeim ríkisstofnunum sem mældar voru. Í könnuninni voru 76% aðspurðra jákvæðir gagnvart Landspítala, 18% hlutlausir og einungis 6% neikvæðir. Heildareinkunn spítalans hækkar frá 3,7 upp í 4,0 (hæsta einkunn er 5,0).

Björn segir að líka hafi verið mælt hversu margir hafi haft samskipti við Landspítala síðasta árið. Niðurstaðan er að 47% aðspurðra virðast hafa gert það (44% árið 2008).  Gögnum Landspítala sýni að u.þ.b. þriðjungur Íslendinga njóti lækninga á spítalanum á hverju ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert