Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra , Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri og fulltrúar íslenskra orkufyrirtækja sóttu ráðstefnuna DIREC 2010 um endurnarnýjanlega orku sem var að ljúka í Nýju-Delhi. Á fundum iðnaðarráðherra með indverskum ráðamönnum kom fram mikill áhugi á samstarfi við Íslendinga um virkjun jarðhita og vatnsafls.
Samstarfsnefnd Íslands og Indlands um nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa hélt sinn fyrsta formlega fund. Reykjavik Geothermal undirritaði samning um samstarf við indverska fyrirtæki Thermax um byggingu jarðhitavirkjunar á Indlandi og Landsvirkjun og Power og verkfræðistofan Verkís skrifuðu undir ráðgjafarsamning um byggingu og rekstur vatnsaflsvirkjana í Himalayafjöllum.
Fundir iðnaðarráðherra með indverskum ráðamönnum
Í framhaldi af DIREC 2010 - ráðstefnu um endurnýjanlega orku í
Nýju-Delhí – átti Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra sérstaka fundi með
Dr. Farooq Abdullah, ráðherra nýrra og endurnýjanlegra orkugjafa á
Indlandi, Omar Abdullah, forsætisráðherra í Kasmír, og ráðherra
vísinda- og tæknimála ásamt forstjóra Orkubúsins í Kasmír. Á fundunum
kom fram mikill áhugi á samstarfi við Íslendinga um virkjun jarðhita og
vatnsafls.
Samstarfnefnd Íslands og Indlands um nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa hélt fyrsta formlega fund sinn í ráðuneyti umhverfisvænnar orku í Nýju Delhi í dag. Nefndarmennirnir Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri og Gauri Singh ráðuneytisstjóri voru í fyrirsvari á fundinum og var gerð áætlun um samstarf milli ríkjanna á sviði jarðhitamála. Fyrsti áfanginn verður aðkoma íslenskra sérfræðinga að frekari rannsóknum á þekktum jarðhitasvæðum á Indlandi í samvinnu við indversku jarðvísindastofnunina (NGRI). Samhliða er unnið að vali staða til þess að reisa tilraunavirkjun þar sem einnig verður lögð áhersla fjölbreytta nýtingu jarðhitans og þróun byggðar og atvinnukosta.