Ef Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu þýðir það algerlega nýtt starfsumhverfi og lagaumgjörð fyrir landbúnað á Íslandi. Endurskoða þyrfti öll lög sem varða framkvæmd landbúnaðarkerfisins á Íslandi og gera þyrfti grundvallarbreytingar á stjórnsýslu landbúnaðarmála. Þetta er mat Landssamband kúabænda, sem leggur áherslu á að tollvernd fyrir mjólkurvörur verði viðhaldið.
Mjólkurvörurnar hafa verið flokkaðar í þrjá flokka með tilliti til þess hvort þær njóta fjarlægðarverndar eða ekki. Í síðasta flokknum eru unnar mjólkurvörur sem njóta engrar eða mjög takmarkaðrar fjarlægðarverndar. Kúabændur benda á að þetta séu um 52,4% af mjólkurvörusölunni hér á landi.
„Áhugi íslenskrar smásölu á innflutningi mjólkurvara yrði mjög verulegur. Í ljósi þess hversu íslensk smásala er á fárra höndum, mun afstaða hennar skipta miklu máli um atburðarás á markaðnum. Fram hjá því verður ekki horft að tilhneiging getur orðið til þess að innfluttar mjólkurvörur njóti nokkurs forgangs í sölumeðferð vegna þess að hluti af geymsluþolinu eyðist á þeim tíma sem það tekur að flytja vöruna til landsins,“ segir í skýrslu Landssambands kúabænda sem kynnt var á haustfundum með bændum.
Kúabændur benda á að þróunin hefur orðið sú í Evrópu að til hafa orðið afar stór mjólkursamlög og eru starfssvæði þeirra og hráefnisöflun ekki takmörkuð við landamæri. Sem dæmi um afar öflugt mjólkursamlag má nefna sænsk/danska samlagið Arla Foods, sem tók á móti ca. 8,7 milljörðum lítra af mjólk á síðasta ári og er því ca. 74 sinnum stærra en sem nemur íslenska markaðnum. „Ef til óvarðrar samkeppni kæmi við
slíkan risa, þá er stærðarmunur og þar með fjárhagslegt úthald íslenskum mjólkuriðnaði svo mjög í óhag, að segja má að verðsamkeppni af hans hálfu sé fyrirfram vonlaus. Fyrir liggur að Arla Foods skilgreinir NV-Evrópu sem sinn heimamarkað og hefur félagið kortlagt íslenska mjólkurvörumarkaðinn mjög vel.“
Landssamband kúabænda telur að í aðildarviðræðum við ESB að leggja mikla áherslu á að tollvernd fyrir mjólkurvörur verði viðhaldið. „Verði það ekki niðurstaðan, þá er óhjákvæmilegt að til komi mjög verulegur stuðningur við aðlögun að gjörbreyttum aðstæðum. Án sérstakrar aðlögunar, sem þarf að taka yfir nokkurn tíma, verður erfitt verkefni alveg óviðráðanlegt.“