Ásmundur Friðriksson, bæjarstjóri í Garði, hefur beðist afsökunar á orðum sem hann lét falla á fundi í Stapa á fimmtudag. Ásmundur sagði í ræðunni: „Hann [Steingrímur J. Sigfússon] kemur hingað og segir ekki neitt af viti, alveg eins og kelling.“
Oddný G. Harðardóttir, alþingismaður Samfylkingarinnar, gagnrýndi Ásmund fyrir þessi orð í grein í Víkurfréttum.
„Óheppileg orð mín þegar ég kallaði fjármálaráðherra kerlingu hrukku mér af munni í hita leiksins á heitum fundi um atvinnuástandið á Suðurnesjum og ég bið allar konur afsökunar á því. „Kerlingabók“ þýðir kredda eða hjátrú samkvæmt íslenskri orðabók Menningarsjóðs. Mér þykir leitt að hafa notað samlíkinguna „eins og kerling“ þegar ég ræddi um framgöngu Steingríms J. á atvinnumálafundinum í Stapa. Ef einhver reynir að snúa þeim orðum mínum upp í niðrandi tal til kvenna finnst mér það mjög miður, enda vita allir að ég á ekkert slíkt til í mínu fari. Ég vona að allir hafi skilið samhengið og orðnotkunina og alls ekki átti þetta yfir konur almennt,“ segir Ásmundur.
Ásmundur segir að Oddný G. Harðardóttir hafi í grein sinni hengt sig á óheppilegu orðnotkun sína, en með því sé hún að hlaupa frá umræðunni um alvarlega stöðu atvinnumála á Suðurnesjum.
„Hún notar sama herbragðið og Samfylkingunni er svo tamt – að láta aukaatriðin verða aðalatriðin. Oddný er þarna, ein þingmanna, að draga athyglina frá umræðunni um atvinnumál á Suðurnesjum og framkomu ríkisstjórnarinnar með því að gera þessi óheppilegu ummæli mín að aðalatriði fundarins,“ segir Ásmundur og spyr hvar séu tillögur Oddnýjar í atvinnumálum á Suðurnesjum.