Nokkuð stór skjálfti varð undir Blöndulóni í nótt. Hann mældist 3,8 að stærð sem er stærsti jarðskjálftinn sem komið hefur síðan jörð tók að skjálfa á þessum slóðum á þriðjudag.
Tæplega 60 jarðskjálftar hafa mælst í þessari hrinu við Blöndulón. Klukkan 21:10 á
fimmtudagskvöld varð skjálfti, 3,7 að stærð og annar, 3,5 að stærð varð
laust fyrir 10:31 á föstudagsmorgun. Báðir þessir skjálftar fundust í
byggð.
Í nótt skalf jörð líka við Grímsvötn í Vatnajökli. Þar kom jarðskjálfti af stærðinni 3. Upptök hans voru skammt suður af Grímsfjalli. Ekki hafa fylgt neinir smáskjálftar í kjölfarið. Jarðskjálftar eru algengir við Grímsvötn, en skjálftar eru ekki tíðir við Blöndulón.
Landsvirkjun sendi frá sér fréttatilkynningu fyrir helgi. Þar segir að það sé mat fyrirtækisins að engin hætta stafi af jarðskjálftunum fyrir
stíflur og önnur mannvirki á svæðinu en þau eru hönnuð með tilliti til
jarðskjálfta. Áfram er fylgst með jarðhræringum og mannvirkjum á svæðinu
í samráði við almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra.