Ber ekki vitni um neyðarlög

Í málinu er m.a. byggt á orðum þeirra Geirs H. …
Í málinu er m.a. byggt á orðum þeirra Geirs H. Haarde og Björgvins G. Sigurðssonar við bankahrunið. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, hafði samþykkt að gefa skýrslu sem vitni í máli fólks sem átti inneign í peningamarkaðssjóði Landsbankans gegn ríkinu. Ákvörðun meirihluta Alþingis um að draga Geir fyrir Landsdóm olli því að hann mun ekki bera vitni í málinu.

Hilmar Gunnlaugsson, hæstaréttarlögmaður sem flytur málið fyrir hönd stefnenda, sagði að það snerti um 300 manns sem áttu inneign í peningamarkaðssjóði í Landsbankanum þegar hrunið varð haustið 2008. Málið var flutt í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Hilmar sagði að málið snerist upp að ákveðnu marki um gildissvið neyðarlaganna. „Það er meðal annars byggt á því að neyðarlögin hafi ekki öðlast gildi fyrr en eftir að Landsbankinn var tekinn yfir. Því hafi þetta verið afturvirk lög sem sé ólögmætt,“ sagði Hilmar.

Krafist er viðurkenningar á ábyrgð ríkisins á grundvelli yfirlýsinga þeirra Geirs H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, og Björgvins G. Sigurðssonar, þáverandi viðskiptaráðherra, á þessum tíma.

Hilmar segir að þegar ráðherrarnir hafi á þessum tíma talað um að innistæður væru tryggðar hafi þeir m.a. talað um „innistæður og eitthvað annað“. M.a. er byggt á því að þetta „eitthvað annað“ eigi við um innistæður í peningamarkaðssjóðum. Því hafi ríkið í raun ábyrgst þær.

Einnig er byggt á því að ríkið hafi bakað sér bótaskyldu með setningu neyðarlaganna og því beri því að bæta það tjón sem rekja má til setningar neyðarlaganna. 

Hilmar segir að Geir H. Haarde hafi verið búinn að samþykkja fyrir þó nokkru síðan að gefa skýrslu sem vitni í málinu. Í millitíðinni var samþykkt að draga Geir fyrir Landsdóm og með því breyttist staða hans. 

„Þessar spurningar varða atriði sem kunna að fela í sér refsiverða háttsemi. Þar með þarf hann ekki að svara spurningunum. Það er líka væntanlega óþarft að kalla hann fyrir bara til að láta hann lýsa þessu yfir,“ sagði Hilmar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert