Ofanflóðasjóður ræður í dag yfir fjármagni sem nemur á áttunda milljarð króna. Vegna tilmæla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um samdrátt ríkisútgjalda hefur nýjum framkvæmdum á vegum sjóðsins verið frestað til ársins 2013 hið minnsta.
Sjóðnum er ætlað að fjármagna byggingu snjóflóðavarna á landsbyggðinni.Tekjur hans innheimtast í formi 0,3% árlegs gjalds sem lagt er á allar brunatryggðar húseignir, en gjaldið er innheimt samhliða iðgjaldi til Viðlagatryggingar Íslands.
„Auðvitað er það ekki svo að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi járntak á einstökum opinberum sjóðum. En allt verður þetta að falla inn í ákveðna heildarmynd og heildarmarkmið í ríkisfjármálum. Á síðasta ári var ákveðið að draga úr aukningu framkvæmda Ofanflóðasjóðs. En við höfum velt því fyrir okkur að auka framkvæmdir sjóðsins, við vitum af því að þarna eru fjármunir og verkefni framundan,“ segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra, í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.