Hlýtt var í veðri í október og hiti á landinu var 1 til 2 stigum yfir meðallagi áranna 1961-1990, að sögn Veðurstofunnar. Hlýindin voru óvenjuleg framan af mánuðinum, en síðan kólnaði og var hiti síðari hlutann nærri meðallagi og suma daga undir því.
Meðalhitinn í Reykjavík var 6,3 stig og er það 1,9 stigi ofan meðallags. Á Akureyri var meðalhitinn 4,3 stig en það er 1,3 stigi ofan meðallags. Á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 6 stig og 0,6 stig á Hveravöllum. Meðaltöl fleiri stöðva má sjá í töflu. Í Reykjavík var mánuðurinn sá hlýjasti frá 1985, en ámóta hlýtt var í október 2001. Á Akureyri var hlýrra í október 2007 heldur en nú.
Hæsti hiti á landinu mældist á Sauðárkróksflugvelli þann 2. október, eða 17,4 stig. Á mönnuðu stöðvunum varð hiti hæstur á Reykjum í Hrútafirði þann 2. og í Stafholtsey í Borgarfirði þann 3., 15,4 stig.
Veðurstofan segir, að á milli klukkan 10 og 19 þann 10. október hafi mælst 18 til 19,5 stiga hiti á stöðvum Veðurstofunnar í snjóflóðahlíðum og við varnarvirki. Geislunaraðstæður á þessum stöðvum séu með þeim hætti að hámarksmælingar þeirra séu varla sambærilegar við mælingar á öðrum stöðvum. Ljóst sé þó, að óvenjulega hlýtt var þennan dag. Á sama tíma mældist hámarkshiti á stöð vegagerðarinnar á Gemlufallsheiði 17,2 stig og 17,4 stig á Biskupshálsi eystra.
Lægsti hiti í mánuðinum mældist á nýrri veðurstöð í Gæsafjöllum norður af Mývatni, -18,5 stig þann 25. Í byggð varð hiti lægstur í Svartárkoti sama dag, -16,3 stig. Lægstur hiti á mannaðri veðurstöð mældist sama dag á Staðarhóli, -15,0 stig.
Meðalhiti í október var hæstur í Surtsey, 8,1 stig, en lægstur á Brúarjökli og í Sandbúðum, -0,7 stig.
Í Reykjavík eru fyrstu 10 mánuðir ársins jafnhlýir og sama tímabil hefur orðið hlýjast áður en það var á árinu 2003. Veðurstofan segir, að munur á þessum árum tveimur og fyrstu 10 mánuðum ársins árið 1939 sé ekki marktækur. Árið eigi enn möguleika á að verða það hlýjasta í Reykjavík frá upphafi mælinga.
Í Stykkishólmi er það sem liðið er af árinu jafnhlýtt og á sama tíma 2003, ívið hærra en 1939.