Það er kominn tími til að horfa til framtíðar á Íslandi og hætta að horfa til fortíðar með tilliti til efnahagshrunsins sagði Michael Porter, prófessor við Harvard Business School á ráðstefnu um jarðvarmaorku í Háskólabíói sem nú stendur yfir.
Sagði Porter að nú væri mikilvægt að menn byrjuðu að huga að framtíðinni og samkeppnisfærni landsins. Íslendingar þurfi að finna leiðir til að fá meiri virðisauka úr jarðvarmavinnslu sinni og að selja þekkingu sína og tækni erlendis, ekki aðeins orkuna. Í framtíðinni hefðu Íslendingar alla möguleika á að eiga og reka jarðvarmafyrirtæki um allan heim.
Sagði hann mikilvægt að huga að klösum í vinnslu jarðvarmaorku á Íslandi. Þar væri átt við öll þau fyrirtæki og stofnanir, allt frá orkufyrirtækjum til fjármálastofnanna, sem kæmi að vinnslu jarðvarmaorku. Jákvæð ytri áhrif alls klasans fyrir samfélagið væru mun meiri en hverrar einingar fyrir sig og því væri mikilvægt að hugsa um iðnaðinn út frá klösum.
Á þann hátt væri hægt að auka framleiðni, hraða þróun og hvetja til stofnunnar nýrra fyrirtækja í greininni.