Láti ekki börnin borga

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra.
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra. mbl.is/Kristinn

„Þetta er verra en hundsbit, víst er það en kemur ekki allskostar á óvart,“ segir Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra um niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar á fylgi stjórnmálaflokkanna. Hann segið valið standa um niðurskurð eða að velta skuldum yfir á komandi kynslóðir.

„Ríkisstjórnin er nýbúin að leggja fram erfiðustu efnahagsaðgerðir sem ég man eftir, sem einkennast af umdeildum skattahækkunum og erfiðum niðurskurði. Nákvæmlega á sama tímapunkti eru kjósendur afar ósáttir við það að úrræði sem varða húsnæðisskuldir skuli hafa dregist á langinn, en þau eru sem betur fer að komast í lokavinnslu.

Við þessar aðstæður er það ekki undrunarefni að fylgið hverfi frá ríkisstjórninni, og enn síður að forystuflokkur hennar, Samfylkingin í þessu tilviki, tapi mestu.“ 

Þjóðin á tvo valkosti

- Þolir ríkisstjórnin þetta mikla tap, og þá Samfylkingin sérstaklega?
 
„Valið sem við stöndum frammi fyrir sem ríkisstjórn, en líka sem þjóð er þetta: Eigum við að létta okkur lífið með því að slá enn meiri lán og láta næstu kynslóð, börnin okkar, borga fyrir mistök núverandi kynslóða, eða eigum við að taka á vandanum með aðgerðum núna? Það er alveg klárt að ríkisstjórnin ætlar ekki að láta börnin borga. Hún líður fyrir þá ákvörðun núna í könnunum.

En ég segi að aum er sú ríkisstjórn sem ekki hefur taugar og bein til að þola vondar kannanir. Ég sá sem formaður í stjórnmálaflokki framan í 11% fylgi í könnunum en við enduðum kjörtímabilið tveimur árum síðar í 32%.
 
Þurfti svona harðar aðgerðir núna? Aðrir flokkar segja hægt að fara aðrar leiðir? Við teljum þessar aðgerðir óhjákvæmilegar núna. Hitt sýnir reynslan, að ef ríkisstjórn er að gera hlutina rétt, uppsker hún um síðir. Þess vegna er það mín skoðun að ríkisstjórnin, og Samfylkingin sérstaklega, nái vopnum sínum þegar þjóðin sér, að við erum farin að vinna okkur upp úr öldudalnum.

Hitt er jafnljóst, að auðvitað verður ríkisstjórn að bæta úr ef henni hafa orðið á mistök. Þjóðin hefur rækilega sýnt fram á að henni þykir ríkisstjórnin hafa orðið á mistök í aðgerðum varðandi niðurskurð í heilbrigðismálum. Þá verðum við sem í henni sitjum að skoða rækilega hvernig hægt er úr að bæta. Við hlustum, og þessa dagana eru menn að skoða hvernig hægt er að jafna þeim byrðum betur innan heilbrigðisgeirans.“

Stjórnin verður að hlusta

- Verður dregið í land á sumum stöðum?

„Við verðum sem ríkisstjórn að hlusta, og þyki mönnum ósanngjarnt að farið, einsog þeim þykir klárlega varðandi heilbrigðisgeirann, þá verður að bæta úr því  þannig að þjóðin verði sáttari við þann niðurskurð. Jafna honum betur. Og menn eru að skoða það þessa dagana.“

- Er það ekki mótsagnakennt? Annars vegar færirðu rök fyrir því að það verði að draga úr útgjöldum þannig að það sé ekki verið að leggja aukna lánabyrði á komandi kynslóðir og svo hins vegar að það eigi að draga í land í niðurskurði í heilbrigðismálum?

„Heilbrigðisráðherrann hefur sjálfur sagt að þessar aðgerðir sé hægt að gera með öðrum hætti. Ég er að taka undir það. Í því er engin mótsögn, nema síður væri.“

Mjög erfiðar aðgerðir

- Telurðu að útkoman í könnuninni, þ.e. hvað varðar ríkisstjórnina, kunni að hafa eitthvað með samskipti ykkar við kjósendur að gera?

„Ég held að aðalatriðið felist í því að þetta eru mjög erfiðar aðgerðir. Þær birtast í skattahækkunum og erfiðum niðurskurði sem bitnar meðal annars á velferðarmálum. Það er ekki hægt að finna erfiðari hluti en þessa til að bera í fanginu til kjósenda. Við eigum hins vegar ekki annarra úrkosta nema við ætlum að láta einhverja aðra borga fyrir okkur.

Þessir aðrir eru börnin sem munu taka við samfélaginu af okkur í framtíðinni. Við ætlum ekki að láta börnin borga. Við ætlum að ráðast á þennan vanda núna en það kostar blóð, svita og tár og erfiðar aðgerðir. En hann gengur yfir, og börnin okkar taka í staðinn við góðu búi í fyllingu tímans.“

Ekkert kampavín í Valhöll

- Nú mælist Sjálfstæðisflokkurinn með 36% fylgi. Hvernig telurðu að megi skýra það?

„Ég er mest undrandi á að við þessar aðstæður skulu Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn ekki vera hærri. Hreyfingin, langminnsti flokkurinn sem hefur eigi að síður tekið vissa forystu fyrir stjórnarandstöðunni, er farin að slaga upp í Framsókn. Ég hef lifað tímana tvenna og gegnum þá margoft séð Sjálfstæðisflokkinn fara með himinskautum í skoðanakönnunum.

Oft, eins og síðasta áratug, jaðrað við 50% í skoðanakönnunum. Við vitum að fylgi hans er alltaf töluvert minna í kosningum. Í sporum Sjálfstæðisflokksins myndi ég ekki vera ánægður með 36% og hef enga trú á að þeir séu að opna kampavínsflöskur í kvöld. Þetta skýrist af því annars vegar, að hann tapaði óeðlilega miklu í síðustu kosningum miðað við sögulegt fylgi og er eðlilega að ná sér eftir það enda í þægilegu gengi í stjórnarandstöðu, og hins vegar af því að hann er höfuðflokkur stjórnarandstöðunnar. Hann nýtur þess líka að hafa reynt að vera málefnalegur og leggja fram jákvæðar tillögur.

Menn meta það við hann, og það geri ég líka. Það er jákvætt. Það er líka hlutverk stjórnarandstöðu að bera ekki bara fram gagnrýni heldur að koma fram með hugmyndir. Þess nýtur hann, hvort sem menn eru glaðir eða óánægðir með þær, eins og gerist og gengur. Hann hefur gert sér far um að reyna að vera uppbyggilegt stjórnmálaafl, og nýtur þess. En hann skortir hins vegar, ennþá að minnsta kosti, burðina til að leiða stjórnarandstöðuna. Síðustu vikur hefur það verið minnsti flokkurinn, Hreyfingin,“ segir Össur Skarphéðinsson.

Össur boðar endurskoðun á niðurskurðartillögum í heilbrigðiskerfinu.
Össur boðar endurskoðun á niðurskurðartillögum í heilbrigðiskerfinu. Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert