Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra fundaði í morgun með Michel Rocard, sérlegum fulltrúa Frakklandsforseta í málefnum heimskautsvæðanna.
Á vef utanríkisráðuneytisins segir að þeir hafi rætt um þróun mála á Norðurslóðum, áhrif aukinnar skipaumferðar, nýtingu auðlinda og alþjóðalög og -reglur sem gildi á svæðinu.
Þá segir að Rocard hafi gert grein fyrir áhyggjum Frakka af vaxandi auðlindanýtingu og skipaumferð á norðurslóðum og þeim áhrifum sem sú þróun kunni að hafa á viðkvæmt vistkerfi svæðisins.
Össur og Rocard ræddu sérstaklega um hugsanlegar fiskiveiðar í Norður-Íshafi og hvernig best væri að tryggja sjálfbæra nýtingu fiskistofna á því hafsvæði.