„Ég sé ekki ástæðu til að væla eða bera sig illa yfir þessu slaka gengi. Við þurfum bara að horfast í augu við erfiðleikana og líta á þetta sem áskorun um að gera betur,“ segir Ögmundur Jónasson ráðherra VG um lítið fylgi ríkisstjórnarinnar í skoðanakönnun sem RÚV sagði frá í kvöld.
Samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Capacent Gallup hefur fylgi ríkisstjórnarinnar hrunið. Hún nýtur nú stuðnings 30% aðspurðra, en naut stuðnings 40% í síðasta mánuði.
Ögmundur telur ástæðuna fyrir þessum litla stuðningi í skoðanakönnuninni vera þá að fjölskyldur og fyrirtæki glími við alvarlegan skuldavanda og hafi áhyggjur af framtíðinni. Þá standi fyrir dyrum mikill niðurskurður í fjárlagafrumvarpinu.
„Hins vegar ef okkur tekst að sýna fram á að við förum fram á eins réttlátan máta og unnt er við landsstjórnina, þá renni sá tími upp að fylgi stjórnarinnar fari batnandi. Ég er sannfærður um það fyrir mitt leyti að þetta er besta stjórnarmynstrið sem völ er á,“ segir Ögmundur.
Hann segir það mikla sjálfsblekkingu að ætla að þeir sem nú tali sem digurbarkalegast í stjórnarandstöðu, sérstaklega sjálfstæðismenn, myndu leiða þjóðina til aukinnar velsældar.
Eftir sem áður segir hann að leita ætti áfram eftir víðtækri samstöðu um aðgerðir eins og gert hefði verið hingað til.