Bæjarfulltrúar sýknaðir í meiðyrðamáli

Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði.
Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði.

Héraðsdómur Reykjaness sýknaði í morgun þrjá bæjarfulltrúa Kópavogs af kröfu Frjálsrar miðlunar, Brynhildar Gunnarsdóttur og Guðjóns Gísla Guðmundssonar um ómerkingu ummæla sem birtust í grein þremenningana í Morgunblaðinu 12. júní 2009.

Forsvarsmenn Frjálsrar miðlunar fóru í mál við bæjarfulltrúana vegna ummæla þeirra um viðskipti Kópavogsbæjar við Frjálsa miðlun, en Brynhildur er dóttir fyrrverandi bæjarstjóra. Ummæli bæjarfulltrúanna komu einkum fram í grein sem birtist í Morgunblaðinu 12. júní 2009 undir yfirskriftinni „Hvar á að draga mörkin?“ en þar gagnrýna bæjarfulltrúarnir stjórnsýslu bæjarins.

Guðríður Arnardóttir, formaður bæjarráðs, sagðist eftir að dómur var kveðinn upp vera afar ánægð með niðurstöðuna og að málinu sé lokið. Aðspurð segir hún dóminn jafnvel fordæmisgefandi enda segir í niðurstöðunni að kjörnir fulltúrar hafi verið að sinna eftirlitsskyldu sinni. Hefði dómurinn fallið á hinn veginn hefði það hugsanlega haft áhrif á störf kjörinna fulltrúa.

Í greininni sögðu bæjarfulltrúarnir þrír, þau Guðríður, Hafsteinn Karlsson og Ólafur Þór Gunnarsson, m.a. að viðskipti Frjálsrar miðlunar við Kópavogsbæ væru klárlega spilling í opinberri stjórnsýslu hvort sem lög hefðu verið brotin eða ekki, og slíkt ætti ekki að umbera.

„Kjörnir fulltrúar verða að sætta sig við að verk þeirra og orð séu stöðugt undir smásjánni. Það á að gera skýrar kröfur um siðferði og vönduð vinnubrögð. Skýrsla Deloitte og umfjöllun fjölmiðla um málið undanfarnar vikur hefur sýnt svo enginn vafi leikur á að fyrirtækið Frjáls miðlun hefur notið óeðlilegrar fyrirgreiðslu hjá Kópavogsbæ og notið þannig tengsla sinna við bæjarstjóra Kópavogs. Eini kostur bæjarstjóra í stöðunni er að segja af sér," sögðu bæjarfulltrúarnir í greininni en þeir voru fulltrúar Samfylkingarinnar og VG í bæjarráði. Flokkarnir tveir  voru þá í minnihluta í bæjarstjórninni en mynda nú meirihluta ásamt Næst besta flokknum og Lista Kópavogsbúa. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert