„Hallveig Fróðadóttir var fyrsta landnámskonan á Íslandi. Þetta er stytta af manninum hennar“. Besti flokkurinn hefur lagt til að skjöldur með svipaðri áletrun og þessari verði settur á stöpul styttunnar af Ingólfi Arnarsyni á Arnarhóli.
Jón Gnarr borgarstjóri nefndi þetta í umræðu um jafnréttismál í borgarstjórn í dag. Björn Blöndal, aðstoðarmaður borgarstjóra, sagði að Jón Gnarr hafi slegið þessu fram í umræðunni þegar hann tjáði sig um ýmislegt sem tengdist jafnréttismálum.
„Nú langar okkur að skoða hvort hægt er að gera þetta,“ sagði Björn. Hann sagði að kanna þyrfti eignarhald á styttunni og gera þetta með formlegu samþykki hlutaðeigandi.