Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur hefur samþykkt að taka upp innheimtu aukafráveitugjalds af fyrirtækjum. Ætla má að þau fyrirtæki sem greiði gjaldið verði um 2.500 talsins. Tekjur af því á árinu 2011 áætlaðar um 65 milljónir króna.
Í gær tók í gildi sú ákvörðun stjórnar OR frá því í ágúst að hækka verð á dreifingu rafmagns. Orkustofnun hefur staðfest nýju gjaldskrána. Um síðustu mánaðamót gengu í gildi ný gjaldskrá söluhluta raforkuverðsins, sem er á samkeppnismarkaði, og ný gjaldskrá hitaveitu. Breytingin á henni var háð staðfestingu iðnaðarráðuneytisins, samkvæmt tilkynningu frá OR.
Algengt er að rafmagn og heitt vatn fyrir 100 fermetra íbúð á höfuðborgarsvæðinu hafi kostað fyrir breytingarnar um 8.800 krónur á mánuði. Eftir breytingarnar 1. október og 1. nóvember verður mánaðarreikningurinn um 11.200 krónur.
Þetta mun einnig leiða til hækkunar vísitölu neysluverðs en helsta ástæða hækkunar hennar í síðasta mánuði voru verðhækkanir OR. Það þýðir aukna verðbólgu og um leið hækkun verðtryggðra lána.
Innheimta aukafráveitugjalds af fyrirtækjum er gerð á grundvelli nýlegra laga um fráveitur.„Með lögunum er tekið upp svipað fyrirkomulag gjaldtöku fyrir þjónustu fráveitna og vatnsveitna, þar sem leitast er við að þau fyrirtæki sem frekust eru á þjónustuna greiði í samræmi við afnot sín.
Aukavatnsgjald hefur verið innheimt um áratugaskeið og með breytingunni, sem innleidd verður í áföngum á næstu þremur árum, er gjaldtaka af notum fyrirtækja af fráveitukerfinu færð til sama horfs.
Upphæð aukafráveitugjaldsins mun taka mið af vatnsnotkun viðkomandi reksturs að frádregnu því vatnsmagni sem áætlað er að fari í framleiðslu fyrirtækisins. Lagt verður mat á þetta í samstarfi OR og hvers rekstraraðila. Markmið hinna nýju fráveitulaga var meðal annars að stuðla að hagkvæmni í uppbyggingu og starfrækslu fráveitna og að tryggja uppbyggingu og starfrækslu fráveitna þannig að frárennsli valdi sem minnstum óæskilegum áhrifum á umhverfið," segir í fréttatilkynningu frá OR.
Þá standa yfir breytingar á tilhögun greiðslu viðskiptavina á innheimtukostnaði. Við það lækka seðilgjöld þeirra sem enn frá senda heim greiðsluseðla úr 251 krónu í 211 krónur. Á móti munu allir aðrir greiðendur greiða færslugjald sem nemur 87 krónum á hvern reikning og rennur það til bankastofnana og annarra greiðslumiðlara. Þessar fjárhæðir eru með virðisaukaskatt, segir í tilkynningu frá OR.