Persónuvernd gerir athugasemd við eftirlit Seðlabanka

Seðlabankinn við Arnarhól.
Seðlabankinn við Arnarhól. Ernir Eyjólfsson

Persónuvernd hefur komist að þeirri niðurstöðu að vinnsla Seðlabanka Íslands vegna eftirlits með gjaldeyrisviðskiptum einstaklinga lúti, a.m.k. að hluta til, að viðkvæmum persónuupplýsingum. Hefur málið verið tekið til meðferðar í því ljósi og er nú beðið skýringa bankans um með hvaða hætti hann uppfyllir þær kröfur sem lög gera til vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga.

Persónuvernd segir ljóst að umfangsmikil vinnsla fari fram, m.a. með upplýsingar sem Seðlabankinn sækir til fjármálastofnana, tollyfirvalda og greiðslukortafyrirtækja. Kemur fram að vakni grunur um brotlega háttsemi geti komið til þess að Seðlabankinn kalli eftir yfirliti hreyfinga á bankareikningum í eigu aðila sem rannsókn beinist að. Sílkt yfirlit berst frá Reiknistofu bankanna eftir að henni hefur verið send formleg gagnaöflunarbeiðni og lýtur að öllum fjárhagslegum aðgerðum í tölvukerfum stofunnar á þeim bankareikningum og því tímabili sem óskað er eftir. Þá segir að til þess geti komið að upplýsinga um aðila, sem til rannsóknar eru, sé aflað beint frá fjármálastofnunum. Þar er um að ræða staðfest afrit símgreiðsluskeyta; afrit tölvupóstskeyta og annarra gagna sem liggja til grundvallar tilteknum viðskiptum eða fjármagnshreyfingum; ítarupplýsingar um tilteknar hreyfingar á innlánsreikningum sem ekki reynist unnt að rekja með hefðbundnum hætti, s.s. afrit gjaldkerakvittana; gögn sem fjármálafyrirtæki afla frá viðskiptavinum á grundvelli laga  um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka; og aðrar upplýsingar sem fjármálastofnanir meta viðeigandi eftir atvikum.

Seðlabankinn telur umræddar upplýsingar ekki viðkvæmar því brot á lögum um gjaldeyrismál varði stjórnvaldssektum sem ekki teljist til refsinga í skilningi refsiréttar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert