Stjórn Íbúðalánasjóðs hefur ráðið Sigurð Erlingsson, viðskiptafræðing, sem framkvæmdastjóra sjóðsins. Sigurður starfaði áður fyrir Landsbankann. Hann mun hefja störf hjá Íbúðalánasjóði á næstu dögum en Ásta H. Bragadóttir hefur gegnt starfinu frá því í sumar.
Starf framkvæmdastjóra var auglýst að nýju í haust eftir að stjórn sjóðsins komst ekki að niðurstöðu um hvern skyldi ráða í starfið. Ásta H. Bragadóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri sjóðsins, hefur gegnt framkvæmdastjórastarfinu frá því Guðmundur Bjarnason lét af embættinu í sumar. Hún var meðal umsækjenda þegar starfið var auglýst laust til umsóknar en dró umsókn sína til baka eftir að þáverandi félagsmálaráðherra, Árni Páll Árnason, lagði til að skipuð yrði valnefnd til þess að velja framkvæmdastjóra. Ásta sótti ekki um starfið þegar það var auglýst að nýju.
Sigurður
er viðskiptafræðingur af endurskoðunarsviði frá Andrews University í
Bandaríkjunum (1994), löggiltur verðbréfamiðlari (1998), með M.Sc. í
viðskiptafræði frá Háskóla Íslands með áherslu á fjármál (2003) og MBA
frá Háskólanum í Reykjavík (2010).
Sigurður starfaði hjá Landsbanka
Íslands hf. frá 2000-2008, fyrst sem sérfræðingur í greiningardeild og
síðar sem forstöðumaður á Alþjóðasviði bankans. Frá 2008 starfaði
Sigurður sem verkefnastjóri og sérfræðingur í fjárhagslegri
endurskipulagningu stærri fyrirtækja hjá NBI hf. Fyrir þann tíma
starfaði Sigurður sem millistjórnandi á fjármálasviðum nokkurra
fyrirtækja. Sigurður hefur verið stundakennari við viðskiptadeild
Háskólans í Reykjavík og við Stjórnendaskóla HR frá 2001.
Sigurður er giftur Nönnu Guðnýju Sigurðardóttur sjúkraþjálfara og saman eiga þau einn son.
Sigurður mun hefja störf hjá Íbúðalánasjóði á næstu dögum.