Samþykkt að fara í stefnumótun í húsnæðismálum

Reykjavíkurborg boðar greiningu á húsnæðismarkaði og framtíð Félagsbústaða
Reykjavíkurborg boðar greiningu á húsnæðismarkaði og framtíð Félagsbústaða mbl.is/Rax

Borgarstjórn samþykkti á fundi sínum rétt í þessu að unnin verði húsnæðisstefna  fyrir Reykjavíkurborg til ársins 2020 og aðgerðaáætlun til að tryggja að stefnan nái fram að ganga. Meginmarkmiðið er að stuðla að fjölbreyttum og sveigjanlegum húsnæðismarkaði sem tryggir öllum öruggt þak yfir höfuðið á viðráðanlegu verði.

Í því skyni verði þau umskipti sem orðið hafa á húsnæðis-, fjármála- og lánamarkaði greind og lagt mat á áhrif þeirra á þróun húsnæðismála næstu ár, samkvæmt fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg.

„Skilyrði fyrir uppbyggingu öflugs og almenns leigumarkaðar verða skilgreind og hvernig styðja megi kröftuglega við þróun hans með aðkomu sveitarfélaga, ríkis, lífeyrissjóða og einkaaðila. Í kjölfarið verða lagðar fram tillögur um hvernig tryggja megi félagslegan fjölbreytileika í hverfum og sérstaklega verður hugað að því hvernig tryggja megi framboð af ódýru og öruggu húsnæði til leigu eða kaups fyrir núverandi og næstu kynslóðir ungs fólks. Sérstaklega verður hugað að búsetuúrræðum aldraðra og hópa sem þurfa sérstakan stuðning, þannig að fólk geti búið heima með aðstoð, kjósi það sjálft," segir í tilkynningunni.

Fjallað verður um hlutverk og framtíðarsýn Félagsbústaða hf. og það skoðað hvort Félagsbústaðir hf. geti orðið hluti af stærra húsnæðissamvinnu- og búseturéttarfélagi á öllu höfuðborgarsvæðinu.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert