Segir Ísland á réttri leið

Forsætisráðherrar Norðurlandanna á blaðamannafundi í Reykjavík í morgun.
Forsætisráðherrar Norðurlandanna á blaðamannafundi í Reykjavík í morgun. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, segir íslensku þjóðinni hafa tekist vel til við að takast á við mjög erfiða kreppu. Þetta kom fram á fréttamannafundi forsætisráðherra Norðurlandanna á Norðurlandaráðsþingi á Grand hóteli í morgun.

Stoltenberg kvaðst ánægður að sjá íslensku krónuna ná stöðugleika og efnahagslífið styrkjast. Hann sagðist þó skilja að margar aðgerðir hafi verið sársaukafullar. „Ísland er sannarlega á réttri leið,“ sagði Stoltenberg.

Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar, tók í sama streng. Hann taldi það mikilvægt fyrir Norðurlöndin að aðstoða Ísland á erfiðum tímum.

Þá var rætt um innflytjendamál og samstarf við Eystrasaltsríkin á fréttamannafundinum.

Ráðherrarnir voru  spurðir um þátttöku ríkja sinna í stríðinu í Afghanistan. Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, kvað þátttöku Norðurlandanna í stríðinu mikilvæga. Hann óskaði jafnframt Reinfeldt til hamingju með þann víðtæka stuðning sem tillögur hans um framtíðarhorfur Svía í Afghanistan hlutu í sænska þinginu.

 Stoltenberg sagðist vera sammála Rasmussen en bætti við að hersveitir Norðmanna ættu ekki að vera lengur í Afghanistan en nauðsyn krefst. „Það verður enginn deginum lengur í Afghanistan en þörf krefst.“

Ráðherrarnir voru spurðir hver staða Icesave-málsins væri en þeir svöruðu, að það mál hefði ekkert borið á góma á fundi þeirra í dag. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði að Icesave-málið hefði legið nokkuð niðri í sumar en hún væri bjartsýn á að niðurstaða fengist í það innan tíðar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert